Helgarsprokið 12. september 1999

255. tbl. 3. árg.

Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar sjást ekki fyrir. Eitt helsta slagorð þeirra er: Umhverfið á að njóta vafans. Það sem þeir virðast eiga við með þessu slagorði sínu er að umhverfi mannsins eigi að njóta vafans en ekki maðurinn sjálfur. Í júnihefti tímaritsins Economic Affairs ritar Roger Bate yfirmaður umhverfismáladeildar Intitute of Economic Affairs grein um yfirvofandi samþykkt Sameinuðu þjóðanna sem mun banna notkun þrávirkra lífrænna efna eins og skordýraeitursins DDT. Bannið nýtur einkum stuðnings vestrænna ríkisstjórna ekki síst Evrópusambandsins sem Þýskaland var í forystu fyrir fram í júlí. „Græn“ félög leggja einnig mikla áherslu á að fá bannið samþykkt en af þeim er nóg í Þýskalandi.

Roger Bate bendir á að malaría sé sjaldgæf í Evrópu en í öðrum heimshlutum deyja árlega um 2 milljónir manna af hennar völdum. DDT er ódýrasta og einfaldasta vörnin gegn moskítóflugunni sem ber malaríuna með sér. Önnur efni og varnir gegn flugunni eru enn sem komið er of dýr fyrir efnalítlar þjóðir utan Evrópu. DDT getur safnast fyrir í náttúrunni og skaðleg áhrif þess hafa einkum verið talin bitna á fuglum en þá þarf að vera um langvarandi og óhóflega notkun að ræða. Óhætt er að fullyrða að bann við notkun efnisins hafi mikið tilfinningalegt gildi fyrir mörg umhverfisverndarsamtök þar sem Rachel Carson sem var ein af upphafsmönnum umhvefisverndarvakningarinnar á sjöunda áratugnum var með DDT ofarlega á svarta lista sínum eins og lesa má um í bók hennar og heilagri ritningu umhverfisverndarsinna Silence of the Spring.

Helstu andstæðingar bannsins eru aftur á móti ríkisstjórnir í fátækum ríkjum heims sunnan Sahara og starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana sem sinna heilbrigðisþjónustu í þessum löndum. Vestræn stórfyrirtæki eru flest hætt að framleiða DDT og beita sér því ekki í þessu máli nema þau sem eru farin að framleiða önnur og dýrari efni sem leyst geta DDT af hólmi og styðja þá auðvitað bannið. Fulltrúar fátæku ríkjanna hjá SÞ eru einnig undir hælnum hjá vestrænum ríkisstjórnum hvað fjárhagsaðstoð varðar og geta ekki beitt sér gegn þeim sem skyldi.

Allsherjarbann gegn DDT getur ef til vill dregið úr notkun þess og komið í veg fyrir þann skaða sem það veldur hugsanlega í umhverfinu en um leið eru verður mannslífum fórnað. Allt í nafni vafans sem okkur er sagt að umhverfið eigi að njóta.