Laugardagur 4. september 1999

247. tbl. 3. árg.

Um þessar mundir er eitt ár liðið frá því Úlfar Þormóðsson skrifaði Margréti Sæunni Frímannsdóttur opið bréf í Morgunblaðið. Í bréfinu spurði Úlfar nokkurra spurninga um fjármál Alþýðubandalagsins og var tilefnið það, að Margrét hafði sent flokksmönnum bréf og hvatt þá til að styrkja flokkinn með fjárframlögum eins mjög og þeir gætu. Hafði Margrét sagt í bréfi sínu að fjárhagsstaða flokksins væri mun verri en áður hefði verið talið. Margrét sagði að á landsfundi Alþýðubandalagsins árið 1995 (þegar hún tók við formennsku af Ólafi Ragnari Grímssyni, síðar forseta Íslands) hefði því verið haldið fram að skuldir flokksins væru 33-35 milljónir króna en við endurskoðun bókhaldsins hefði komið í ljós að þær hefðu í raun verið 52 milljónir!

Vegna þessa spurði Úlfar nokkurra spurninga, m.a. þess hver hefði gefið hinar röngu upplýsingar, hvort bókhaldið hefði verið falsað og þá hver hefði gert það, hver hefði stofnað til þessara skulda, hver hefði stýrt peningamálum flokksins og undir eftirliti hverra. Þess má geta að Úlfar hafði starfað innan Alþýðubandalagsins um áratugaskeið, ekki síst að fjármálum þess. Spurði hann einnig hvort rétt væri að forveri Margrétar á formannsstóli, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði ásamt framkvæmdastjóra flokksins haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota í gegnum krítarkort eða á einhvern annan hátt, „hvort þeir félagar hefðu fundið upp á þessu bragði til búdrýginda hjá sér með vitund framkvæmdastjórnar flokksins“ og hvort þessi hlunnindi hefðu verið gefin upp til skatts. Jafnframt spurði Úlfar hvort einn af framkvæmdastjórum flokksins hefði „notað ávísanahefti flokksins eins og sitt eigið og bókhaldarar hreyfingarinnar setið löngum stundum við að flokka nótur af veitingahúsum borgarinnar frá rekstrarnótum flokksins“.

Þessum spurningum Úlfars svaraði Margrét ekki orði og ekki heldur aðrir þeir sem komu við sögu í spurningum Úlfars. Þremur vikum eftir grein Úlfars skrifaði annar Alþýðubandalagsmaður, Jón Torfason íslenskufræðingur, Margréti opið bréf í Morgunblaðið og ítrekaði spurningar Úlfars. Árangurinn varð sá sami.

Tíu dögum síðar skrifaði Úlfar enn og ítrekaði spurningar sínar og bætti fleirum við. Ekkert svar kom frá Margréti. Og þremur vikum eftir aðra grein Úlfars skrifaði Jón Torfason enn og bað enn um svör. Og Margrét sem jafnan talar um hve bókhald Alþýðubandalagsins sé opið þagði áfram.

Og nú er liðið ár.