Því er oft haldið fram að ástæða þess að ráðstjórnarríkin þraukuðu jafn lengi og raun ber vitni sé sú að markaðshagkerfið hafi haldið þeim gangandi. Frjáls markaður fékk að vísu ekki að starfa ofan jarðar, en neðanjarðarhagkerfið blómstraði víða. Sígarettur voru, líkt og í öðrum fangelsum, oft á tíðum sá gjaldmiðill sem auðveldaði viðskiptin því seðlar ríkisins voru lítils virði. Hagkerfi sem hefðu hrunið á örfáum árum ef framkvæmdin hefði tekist eins og valdhafar ætluðust til, þraukuðu í sjö áratugi með hjálp einstaklingsframtaksins og svarta markaðarins.
Í nýjasta tölublaði vikuritsins The Economist er svarti markaðurinn í heiminum til umfjöllunar. Sagt er frá rannsókn sem gerð hefur verið á umfangi hans þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að það sé um 15% af vergri landsframleiðslu í ríku löndunum og um þriðjungur landsframleiðslunnar í fátækari ríkjum heims. Þetta eru vissulega alls ekki nákvæmar tölur, en gefa þó einhverja vísbendingu. Hið athyglisverða við þessa úttekt er þó ekki hversu stórt neðanjarðarhagkerfið er, heldur hverjar ástæðurnar eru fyrir því að menn kjósa að stunda viðskipti sín þar sem hið opinbera sér ekki til.
Í fátækari ríkjum heims fara menn oft undir yfirborðið til að forðast lög sem banna fjárhættuspil, fíkniefni og vændi, þannig að yfirvöldum er í lófa lagið að ná starfseminni upp á yfirborðið með því að hætta að gera hana að lögbroti. Í ríkari ríkjunum er helsta ástæðan fyrir neðanjarðarhagkerfinu þung skattbyrði og reglugerðafrumskógur. Á Ítalíu og í Belgíu er um fjórðungur hagkerfisins talinn vera í svarta hlutanum og þar er samanlögð skattbyrði (beinir og óbeinir skattar auk lífeyrisgreiðslna) yfir 70% hjá meðaltekjumanni. Skattbyrðin á meðaltekjumann í Bandaríkjunum er hins vegar ekki nema 41% og þar er neðanjarðarhagkerfið aðeins um helmingur af því sem það er á Ítalíu og í Belgíu.
Aukin umsvif hins opinbera hafa líka valdið því að fleiri vinna svarta vinnu en áður. Þannig er áætlað að 10% Þjóðverja hafi unnið svarta vinnu á áttunda áratugnum, en nú sé þetta hlutfall komið í 22%. Hagkerfið á Vesturlöndum hefur því verið að dökkna og eina leiðin til að lýsa það upp er að draga úr skattheimtu og reglugerðum.