Ritstjórar Morgunblaðsins hafa flaggað ýmsu í furðu heiftarlegri baráttu sinni fyrir því að ríkisbankarnir verði í dreifðri eign þegar þeir verða loksins seldir. Baráttan minnir að vísu á slag við vindmyllur þar sem eini íslenski einkabankinn, Íslandsbanki, er í dreifðri eign og ekkert sérstakt sem bendir til annars en að þegar ríkisbankarnir verða seldir að hið sama muni gilda um þá. Meðal þess sem ritstjórarnir hafa dregið fram máli sínu til stuðnings er gömul skýrsla frá stjórnendum Búnaðarbankans þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að heppilegast sé að bankinn verði í dreifðri eign. Þeir vitna einnig í bankastjóra Landsbankans í leiðara sínum í gær en hann hefur sagt að heppilegast sé að bankar séu í dreifðri eign. Fáum ætti að koma það á óvart að stjórnendur fyrirtækja vilji að hlutahafar séu margir og tvístraðir og eigi erfitt með að stilla saman strengi sína. Þannig eru völd þeirra meiri en í fyrirtæki þar sem fáir stórir hluthafar eru sem eiga fulltrúa í stjórn og hafa áhrif á stjórnun fyrirtækisins. Þetta þekkja hins vegar ekki ritstjórarnir enda er vinnuveitandi þeirra lokað hlutafélag í eigu fárra.
Annað hjartans mál Morgunblaðsins er auðlindaskattur á sjávarútveginn. Það ber því vel í veiði þegar blaðið finnur prófessor í fiskihagfræði sem segir að auðlindagjald sé góður skattur og því er hiklaust slegið upp með stríðsletri á baksíðu. En prófessorinn Rögnvaldur Hannesson segir fleira í viðtalinu við Morgunblaðið sem ekki rataði á baksíðuna. Þannig segir hann aðspurður um meint brottkast afla í kvótakerfinu: Ekkert kerfi er fullkomið og ég tel að brottkast sé fylgifiskur kvótakerfis hvernig sem það er hannað. Á móti kemur að kerfið á að hvetja til sparnaðar í rekstri og mér finnst ólíklegt að brottkast á fiski sé það mikið að það vegi upp þessa kosti. Það er reyndar ákaflega erfitt að mæla brottkast á fiski en ég hef tilhneigingu til að trúa að það sé ekki verulegt og áreiðanlega minna en margir vilja vera láta. Hið svokallaða kvótabrask tel ég að mörgu leyti vera eðlileg viðskipti. Það á að hafa sem allra minnstar hömlur á því hvernig menn fara með kvótana. Í því liggur hagræðingin.