Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera sagði eitt sinn að einkalífið og sinfóníuhljómsveitin væru tvö tákn hins vestræna þjóðskipulags. Hvað sem um þetta með sinfóníuna má segja, þá var einkalíf meðal þess sem íbúar Vesturlanda nutu umfram þá sem voru neyddir til að upplifa gerska ævintýrið í austurvegi. Svo mjög var einkalíf fjarri þeim ógæfumönnum að í rússnesku er ekki til eitt einasta orð yfir hugtakið. Nú hefðu ýmsir haldið að með þjóðfélagsbreytingum í austri, yrði rússneskan hér fljótlega einu orði ríkari. Hinu bjuggust færri við, að senn kynni að koma að því að þetta íslenska orð missti merkingu sína.
Á þeirri öld sem horfin verður eftir tæplega hálft annað ár, hefur tækni fleygt hraðar fram en á nokkurri annarri sem sögur kunna að greina frá. Þó flestir raunsæir menn muni vera þeirrar skoðunar að sú þóun hafi verið mannkyni mjög til hagsbóta, er ekki því að neita að tækniframfarir hafa sumar sínar slæmu hliðar. Á þeim rafrænu tímum sem nú eru, þar sem viðskipti fara meira og minna fram með greiðslukortum eða í gegnum tölvu, þar sem samskipti marga og upplýsingaöflun fara einnig um tölvu, þar sem menn geta sjaldnast átt nokkur viðskipti að ráði án þess að gefa um sig ýmsar upplýsingar, er svo komið að alls kyns einkamál manna eru ekki einkamál þeirra lengur.
Vel má vera að mörgum sé algerlega sama. Ég hef ekkert að fela“, kunna þeir að segja. Ef einhver vill vita hvað ég kaupi í matinn þá má hann það svo sem, ha ha ha, hlær kannski einhver. En þó menn hafi kannski takmarkaðar áhyggjur af þessu í dag þá mega þeir hafa í huga að nú orðið gera þeir fremur fátt sem sem ekki skilur eftir sig rekjanlega slóð.
Hver einasta kredit- eða debitkortsfærsla er skráð. Margir nota að auki rafræn afsláttarkort en slíka notkun má einnig skrá. Símtöl eru skráð. Ferðir fólks um Netið eru skráðar. Sé kveikt á farsíma þá er hægt að sjá hvar hann er. Fullkominn tölvubúnaður getur nú þekkt fólk af myndbandsupptökum og myndavélum fjölgar á almannafæri. Og þannig mætti áfram telja.
Fleira dregur úr einkalífi fólks og mætti þar nefna að ríkisvaldið heimtar af því allskyns upplýsingar um fjármál þess og lætur þær svo liggja frammi fyrir misgeðfellda gesti og gangandi.
Þó hinni auknu notkun nútímalegra viðskiptahátta fylgi möguleikar til að grafast fyrir um einkamálefni viðskiptamannanna, er ekki þar með sagt að þeir möguleikar séu allir nýttir. En tilhugsunin um almenn endalok einkalífs, vekur mörgum óhug. Hið virta tímarit, The Economist, fjallaði um þetta fyrir nokkru og var ekki bjartsýnt fyrir hönd þeirra sem í framtíðinni munu vilja eiga sín einkamál út af fyrir sig. Nú þegar, sagði tímaritið, er upplýsingum um fólk, einkum verslunarhætti þess, safnað saman og þær seldar áfram. Þannig má kortleggja neyslu flestra manna og í Bandaríkjunum eru nú til ótrúlega yfirgripsmiklar skrár af þessu tagi.
Margir vilja sporna við þeirri þróun sem þeir telja að sé að skella á með vaxandi þunga. Sumir telja að með allskyns lagasetningu megi treysta það sem enn er eftir af einkalífi fólks. Slíkum hugmyndum er þó gjarnan mótmælt með því að þær leggi óeðlileg og einkum kostnaðarsöm bönd á viðskiptalífið, hindri tækniþróun auk þess sem þær muni aldrei ná tilgangi sínum.
Þá eru markaðslausnir eftir. Ef almenningur er í raun þeirrar skoðunar að sú þróun, sem hér hefur verið fjallað um, sé slæm, getur hann haft nokkur áhrif á hana með neyslu sinni. Ef fjöldi neytenda tæki sig saman um að beina viðskiptum sínum til þeirra fyrirtækja sem auglýstu og tryggðu að þau söfnuðu ekki upplýsingum um kúnnana, er ekki að efa að ýmis fyrirtæki sæju sér hag í að koma til móts við slíkar óskir. Frjáls samtök neytenda gætu samið við fyrirtæki um slíkt og kynnt fólki hvaða fyrirtæki hefðu heitið því að reyna ekki að afla slíkra upplýsinga og hvaða fyrirtæki hefðu neitað að semja um slíkt.
Þó slík samtök kynnu að hafa talsverð áhrif, þá er ekki víst að þróunin verði stöðvuð. Margir telja að eingöngu verði unnt að hægja á henni en niðurstaðan hljóti alltaf að verða sú sama; innan skamms muni það einkalíf, sem menn þó njóta enn í dag, verða glatað.
Ýmsir eru áhyggjufullir yfir þeirri þróun sem þeir þykjast sjá fyrir en hafa þó ekki trú á að slík samtök verði til, og komi þar til ýmist vanþekking eða áhugaleysi almennra neytenda. Slíkir menn hvetja aðra þó gjarnan til að verja einkalífið sem mest þeir mega og gefa til þess ýmsar ráðleggingar, sem mörgum finnst eflaust til marks um ofsóknaræði:
Notið reiðufé í sem allra flestum viðskiptum.
Notið ekki rafræn afsláttarkort.
Látið fjarlægja nafn ykkar af útsendingarlistum, t.d. sem skólar og hagstofa láta í té.
Svarið ekki neyslukönnunum.
Hafið farsímana sem sjaldnast í gangi.
Lokið fyrir númerabirtingu símans og verið ekki í skránni.
Þið sem notið Netið, stillið vafrana ykkar þannig að þeir hafni öllum cookies.
Skráið ykkur aldrei undir réttu nafni á nokkurri vefsíðu.