Miðvikudagur 4. ágúst 1999

216. tbl. 3. árg.

Nú hefur Byggðastofnun úthlutað svonefndum byggðakvóta til ákveðinna fyrirtækja í ákveðnum byggðalögum. Ekki síst þeim byggðalögum sem selt hafa frá sér kvóta. Flestir, jafnvel þeir sem standa að þessari úthlutun, eru sennilega sammála um að sértækar aðgerðir að þessu tagi í atvinnumálum eru ekki æskilegar. Frjálsa aflamarkskerfið leiðir óhjákvæmilega til þess að þeir sem standa best að útgerð kaupa kvótann af hinum. Úthlutun byggðakvótans er andstæð þeirri þróun og er afar óréttlát gagnvart þeim sem lagt hafa hart að sér til að auka kvóta sinn. Nú fá aðrir kvóta á silfurfati. En líklega líta margir ekki síður á þessa úthlutun byggðakvótans sem félagslega aðstoð eða það sem áður var nefnt fátækrahjálp. Milton Friedman veltir því fyrir sér í bók sinni Frelsi og framtak hvernig aðstoð við þá sem verst eru staddir skuli háttað. Um það segir hann: „…hjálpin verður að vera með þeim hætti, að fátæklingnum sjálfum sé hjálpað, en ekki öðrum. Hjálpa á fátækum bónda af því að hann er fátækur, en ekki af því að hann er bóndi. Aðgerðin verður að miðast við einstaklingana sem einstaklinga, en ekki sem menn úr einhverjum atvinnustéttum, aldurshópum, verkalýðsfélögum eða iðngreinum. Þessi er galli byggðahjálpar, aðstoðar við aldraða, laga um lágmarkslaun og til að vernda hag verkalýðsfélaga, tolla sérleyfa í tilteknum atvinnugreinum og óteljandi annarra aðgerða ríkisins.“

Friedman heldur því fram í bók sinni að útþensla opinbers velferðarkerfis hafi kostað samdrátt hjá einkareknum hjálparstofnunum. Hann bendir á að „hjálparstofnanir einstaklinga og félaga hafi blómgast á gullöld frjálshyggjunnar – um miðja og á síðari hluta nítjándu aldar.“ Á það má einnig benda í þessu sambandi að á stjórnarárum Reagans í Bandaríkjunum og Thatchers í Bretlandi sem vinstri menn hafa kallað „ár sérhyggjunnar“ jukust frjáls framlög til góðgerðarmála verulega. Þegar vinstri menn saka frjálslynda um skort á náungakærleik vegna þess að frjálslyndir menn vilja ekki leggja á skatta til að þenja velferðarkerfi ríkisins út eru vinstri menn auðvitað ekki að gera annað en að bjóða góðgjörðir á kostnað annarra. Felst náungakærleikur í því að vera rausnarlegur á kostnað náungans?