Lestur frétta frá draumaríkjum margra jafnaðarmanna, Kúbu og Alþýðulýðveldinu Kína, rifjar upp fréttir frá því fyrir meira en áratug þegar Sovétríkin voru enn hluti af heimsmyndinni. Í Sovétríkjunum og löndum Austur-Evrópu var mönnum komið fyrir í fangelsum ef þeir voru óhlýðnir yfirvöldum og ósammála um stjórnarhætti og þeir sem það gátu flúðu þaðan við fyrsta tækifæri. Margt hefur breyst síðan þetta var og er mönnum nú frjálst að yfirgefa þessi ríki ef þeim sýnist svo.
Stjórn Castrós og byltingarstjórnin á meginlandi Kína halda þó enn uppi merkjum kúgunar og sósíalisma, svona rétt eins og til að gleðja ferðalanginn Margréti Frímannsdóttur og aðra Alþýðubandalagsmenn sem fóru í pílagrímsferð til Kúbu nýlega. Fregnir berast oft af kúgun stjórnvalda á Kúbu og nú síðustu daga hefur eitt einkenni stjórnarhátta félagshyggjunnar, flóttamannavandi, gert vart við sig í Kanada. Þar hafa staðið yfir íþróttaleikar Ameríkuríkja og eru markverðustu fréttir af leikunum þær, að 7 íþróttamenn frá Kúbu hafa leitað hælis í Kanada sem pólitískir flóttamenn. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af félaga talsmanns Samfylkingarinnar. Harðstjórinn sá, Fídel Castró, kann hins vegar ekki að skammast sín. Hann skellti skuldinni strax á Kanadamenn og viðraði þá skoðun sína að skýringuna á litlum áhuga íþróttamannanna að halda heim á ný væri að leita í bellibrögðum Kanadamanna en ekki í ömurlegum aðstæðum heima fyrir.
Á sama tíma reynir harðstjórnin í kínverska alþýðulýðveldinu að falla ekki í skuggann af harðstjórn Castrós og hefur enn og aftur lengt fangelsisdóm yfir tíbetskri nunnu, Ngawang Sangdrol. Sú hefur ekki annað til sakar unnið en að vera á öndverðum meiði við Beijingstjórn og að telja lýðræðislega stjórnarhætti farsælli en harðstjórn. Ótrúlegt en satt, þá var hún fyrst handtekin tíu ára gömul og sett í steininn í hálfan mánuð fyrir þátttöku í mótmælum. Fimmtán ára var hún svo dæmd í þriggja ára fangelsi og situr þar enn eftir ítrekaðar lengingar dómsins og verður 36 ára gömul þegar hún sleppur út árið 2013. Nema stjórnvöld haldi uppteknum hætti og lengi fangelsisdóminn með reglubundnum hætti.
Annar lýðræðissinni frá Kína, Xie Wanjun, sem drýgði þann glæp að standa fyrir mótmælum gegn stjórn jafnaðarmanna á Torgi hins himneska friðar fyrir tíu árum og hefur verið þátttakandi í lýðræðishreyfingunni í Kína síðan, er heppnari en nunnan unga. Honum tókst síðastliðinn laugardag að flýja til New York, eftir að stjórnvöld í Beijing höfðu reynt mánuðum saman að fá hann framseldan frá Rússlandi, en hann hafði fengið að dveljast á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Vladivostok.
Þar sem íslenskir jafnaðarmenn eru búnir að fara í pílagrímsferð til Kúbu hlýtur þess að vera skammt að bíða að þeir fari einnig til meginlands Kína að kynna sér helstu afrek félaga sinna í austri.