Frá því var greint í fréttum í gær að samkvæmt skýrslu sérfræðinga sem unnin var fyrir Sameinuðu þjóðirnar hafi tilkoma Internetsins þau áhrif að bilið milli ríkra og fátækra muni aukast. Af fjölmiðlum má helst skilja að þetta sé hið versta mál og í raun brýnt fyrir þjóðarleiðtoga að taka höndum saman gegn þessari vá.
Þessar upphrópanir eru hins vegar byggðar á miklum misskilningi, -í besta falli. Málið er trúlega það að þeir sem vel voru settir fyrir tilkomu netsins og geta nýtt sér þessa nýju tækni munu verða enn betur settir en áður. Fátækt fólk um víðan heim hefur hins vegar ekki sömu tækifæri til að nýta sér hina nýju tækni sökum skorts á efnalegum gæðum og menntun.
Það er mikilvægt að hafa í huga að fátt bendir til að aukinn hagur hinna efnameiri vegna tilkomu netsins sé á kostnað þeirra sem minna mega sín heldur eykst velferð hinna fyrrnefndu einungis hraðar en þeirra síðarnefndu. Aukin velmegun hinna betur settu eykur hins vegar líkurnar á því að þeir verst settu muni, þegar fram líða stundir, einnig bæta kjör sín. Sú hefur reyndar verið þróunin allt frá hinum fyrstu tæknibyltingum s.s. landbúnaðarbyltingunni og iðnbyltingunni.
Í blaðinu Alles, sem gefið er út í Vínarborg, var um daginn samantekt um hversu vitlaust skattkerfið getur verið. Var tekið dæmi af appelsínu, en afar misjafnt er hvernig hún er skattlögð þar í landi eftir því hvernig hún er framreidd. Virðisaukaskatturinn er mishár, lagður er á drykkjarskattur, sem er misjafn eftir landshlutum, og svo framvegis. Við fyrstu sýn brosa Íslendingar auðvitað að svona löguðu og hugsa ef til vill með sér að þetta hljóti að vera einsdæmi. Svona vitlaust og flókið gæti kerfið aldrei orðið á Íslandi. – En skoðum málið betur:
Hér á landi er lagður 14% virðisaukaskattur á appelsínur í föstu kúlulaga formi. Séu þær kreistar og seldar sem hreinn appelsínusafi hækkar virðisaukaskatturinn skyndilega og verður 24,5%. Safinn fær líka á sig vörugjald, sem er 8 kr. á lítra, en sambærilegt gjald er ekki lagt á appelsínurnar sjálfar þegar þær eru á kúlulaga forminu og í náttúrulegu umbúðunum.
Allt mun þetta vafalítið gert til að þvinga fólk til að sjúga safann úr appelsínunni sjálfri og styrkja þannig kjálka- og kinnvöðva landsmanna. Kunna menn löggjafanum mestu þakkir fyrir þessa fyrirhyggju.