Þriðjudagur 6. júlí 1999

187. tbl. 3. árg.

Ekki er ósennilegt að byggingatæknifræðingar og lögfræðingar í Reykjavík laumist í litakassa barna sinna um þessar mundir. Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík gerir nefnilega þær kröfur til eignaskiptayfirlýsinga að þær séu litaðar. Ekki er sama hvernig þær eru litaðar heldur skal sameign allra í fjöleignahúsi vera gul og sameign sumra græn. Þetta upplýsir Stefán Ingólfsson í kjallaragrein í DV í gær. Stefán heldur því fram í grein sinni að embætti byggingarfulltrúans hafi engar lagaheimildir til að krefjast þess af þeim sem annast gerð eignaskiptayfirlýsinga að þeir dundi sér við að lita teikningar af eigninni. Það sé bæði tímafrekt, dýrt, óþarft og komi ekki að miklu gagni þegar yfirlýsingin er ljóstrituð í svarthvítu.

Vef-Þjóðviljinn tjáði sig um þessar eignaskiptayfirlýsingar síðasta haust en til stóð að banna sölu á íbúðum í fjöleignahúsum nema eignaskiptasamningur lægi fyrir. Að því tilefni sagði í Vef-Þjóðviljanum: „Ýmsir telja að með því að setja lög og reglur um sem flest tilvik í mannlegu samfélagi megi koma í veg fyrir árekstra. Aðrir benda á að lög og reglur þvælast oft fyrir fólki og koma í veg fyrir að eðlilegar samskiptavenjur þróist. Löggjafinn geti hvort eð er aldrei séð öll tilvik fyrir. Ef allt er niðurnjörvað með lögum og reglum verður ekki sú þróun og tilraunastarfsemi sem nauðsynleg er fyrir þjóðfélagið. Áratugum saman hafa íbúðir í fjöleignahúsum gengið kaupum og sölum án þess að fyrir liggi þar til gerðir eignaskiptasamningar, dregnir upp af þar til gerðum fulltrúa með tilskilið tæknilegt próf, samþykktir af hæstvirtri bygginganefnd bæjarins og þinglýstir í bak og fyrir. En frá og með áramótum verður ekki hægt að selja íbúðir í fjöleignahúsum nema slíkir eignaskiptasamningar liggi fyrir. Verða þeir sem ætla að selja íbúðir sínar að leggja fram tugi eða hundruð þúsunda króna til að fá slíkan samning. Raunar er búið að fresta gildistöku þessarar kvaðar tvisvar þar sem augljóst mátti vera að ekki tækist að ljúka gerð eignaskiptasamninga fyrir mörg þúsund hús um land allt sem fólk hefur vogað sér að búa í án teljandi erfiðleika án þess að eignaskiptasamningur liggi fyrir.“ Ef til vill verður krafa embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík um litaskreytingu eignaskiptasamninga til þess að tefja málið svo að lögin taka aldrei gildi.

Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er gefinn út fyrir frjáls framlög.