Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, er í DV í gær og er þungt í honum hljóðið. Hann segir nefnilega að það sé alkunna að fólk [geti] ekið svo árum ef ekki áratugum skipti í höfuðborginni án þess að vera nokkurn tímann stöðvað af lögreglu.
Já, það er margt bölið. Vefþjóðviljinn leyfir sér hins vegar að halda því fram að lögreglan geri síst of lítið af því að stöðva för ökumanna um götur Reykjavíkur. Hann leyfir sér meira að segja að bæta því við að það sé alkunna að stálheiðarlegir menn geti verið stöðvaðir margsinnis við akstur sinn, teknir inn í lögreglubifreið, látnir þar blása upp blöðrur og svara allskyns spurningum um ferðir sínar án þess að hafa gefið nokkurt efni til slíkrar meðferðar.
Það getur vel verið að Guðbrandur Bogason hefði ekkert á móti því að sæta slíkri meðferð lögreglunnar. Það getur líka vel verið að mörgum finnist sjálfsagt að yfirgefa eigin bifreið og fara í lögreglubifreið í fylgd lögregluþjóna, kannski til þess að sanna þar að þeir séu ekki drukknir. En það þykir ekki öllum það sjálfsagt. Það er einfaldlega alvarleg þvingunaraðgerð af hálfu lögreglu að stöðva för almennra borgara og ekki minnkar alvarleikinn ef borgaranum er fyrir allra augum gert að fylgja lögreglunni yfir í bifreið hennar. Þó margir telji slíkar þvingunaraðgerðir réttlætanlegar til þess að náð verði til þeirra ökumanna sem hættulegir séu sjálfum sér og öðrum, hljóta menn að gera þá kröfu til lögreglunnar að hún gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Í því felst að hún stilli sig sem mest hún má um að ónáða þá sem ekki kalla á aðgerðir hennar og gæti þess að kalla menn ekki yfir í lögreglubifreiðir nema sterkar röksemdir séu fyrir að hún eigi við þá brýn erindi.