Ýmsir hafa orðið til að rita merkar greinar um eiginleika hinna mismunandi kúakynja á síðustu árum. Þar er fjallað um aðskiljanlegustu þætti sem máli skipta eins og t.d. frumutölu mjólkur, gæði gróffóðurs, kjarnfóðurgjöf, spurn eftir korni í heiminum, erfðagalla, ólík umhverfisskilyrði hérlendis og erlendis, mjólkurafköst, júgurgerð, mjaltaeiginleika, þyngd, erfðavísa, beitartíma, fóðurkostnað, burðarerfiðleika, átgetu, fóðureiningar, skapgerð og jafnvel útlit gripanna, ekki síst hvort þeir eru kollóttir eða ekki. Nú er vitaskuld bæði skiljanlegt og ágætt að fræðimenn, bændur og jafnvel bara venjulegir áhugamenn um kúarækt skeggræði þetta sín á milli og velti upp þeirri spurningu hvort hingað til lands eigi að flytja erlendar beljur. Þegar málið er hins vegar lagt upp með þeim hætti að hið opinbera skuli taka afstöðu til þess hvaða kúakyn eigi að vera hér á landi er gamanið farið að kárna. Og þegar þessar umræður rata inn í hátíðarræðu forsætisráðherra á 17. júní er ástæða til að staldra við í þessu kúamáli öllu saman.
Flesta menn varðar þessi umræða um íslenskan, erlendan eða blandaðan kúastofn ekki neinu. Þess vegna ætti hún undir eðlilegum kringumstæðum eingöngu að eiga sér stað meðal þeirra sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta eða hafa sérstakan áhuga. Og það sem meira er, bændur einir ættu að ákveða hvaða beljur þeir nota við framleiðslu mjólkur og kjöts. Það getur ekki verið eðlilegt að hið opinbera eigi að taka afstöðu til þess hvaða kúakyn er í landinu, því hver bóndi getur haft sitt kyn eða þá blöndu sem hann kýs. Fyrst áhugamönnum um hunda tekst að halda hundakynjum hreinum er bændum engin vorkunn að para saman réttan bola og belju. Kjósi bændur blandað kyn eða erlent kyn ætti þeim að vera það heimilt, rétt eins og að hafa íslenskt kyn. En það á ekki að neyða þá til að hafa einhvers konar ríkisbeljukyn, hvort sem það er erlent eða innlent.
Í fyrradag bar David Boaz frá Cato stofnuninni í Bandaríkjunum vitni fyrir þingnefnd þar í landi um skaðann sem bann við fíkniefnum hefur valdið og mikilvægi þess að hætt verði að banna notkun fíkniefna. Boaz heldur því ekki fram að fíkniefni séu ekki skaðleg, en hann færir fyrir því rök að bannið við þeim valdi mun meira tjóni en það bæti. Hann vísar m.a. til reynslunnar frá bannárunum svokölluðu á þriðja áratugnum þegar áfengi var bannað. Þá dró ekki úr framboði áfengis, en hins vegar varð bannið til þess að til urðu öflugar og skipulagðar glæpaklíkur sem stórgræddu á svarta markaðnum. Hið sama er uppi á teningnum í dag varðandi fíkniefnabannið.
Glæpasamtök græða stjarnfræðilegar upphæðir á fíkniefnabanninu þrátt fyrir (eða öllu heldur vegna þess) að yfirvöld eyða tugum milljarða Bandaríkjadala í baráttuna gegn þeim. Og þrátt fyrir þá staðreynd að tæplega 60% allra fanga í yfirfullum fangelsum í Bandaríkjunum sitja inni fyrir glæpi tengda fíkniefnum (þetta hlutfall fer vaxandi) hefur það ekki haft nein áhrif á framboð fíkniefnanna á götunum. Boaz bendir á að fjölda morða í Bandaríkjunum megi skýra með fíkniefnabanninu. Þeir sem eiga viðskipti á svarta markaðnum hafa engin önnur ráð til að gera út um ágreining en að grípa til ofbeldis. Að mati Boaz er stríðið við fíkniefnin tapað og nauðsynlegt að viðurkenna það og hætta að banna notkun tiltekinna fíkniefna, en meðhöndla þau þess í stað eins og áfengi. Þar með væri hægt að reyna að hindra aðgang ungmenna að efnunum, en Boaz nefnir að í dag telji yfir 80% ungmenna nokkuð auðvelt eða mjög auðvelt að verða sér úti um kannabisefni.