Verðmæti hluta fer ekki eftir eðli þeirra heldur eftir mati manna, jafnvel þótt matið sé heimskulegt, sagði spænski skólastefnumaðurinn Diego de Covarrubias fyrir um 500 árum. Ófáir hafa minnt á þessa staðreynd síðan. Á Alþingi Íslendinga eru hins vegar enn þingmenn sem telja að verðmæti hluta sé ákveðið með öðrum hætti. Þessir þingmenn, sem sumir eru ráðherrar, hafa miklar meiningar um verð á ýmsum hlutum. Einn hefur komist að því að ríkisfyrirtæki hafi verið seld á verði sem var langt undir verðmæti fyrirtækjanna að hans mati. Slík yfirburðaþekking gæti gert hann að auðkýfingi á skömmum tíma ef hann nýtti hana á hlutabréfamarkaði. Annar telur verð á bílatryggingum of hátt og gæti þá væntanlega lagt rekstri tryggingarfélaga til ýmis holl ráð. Sá þriðji telur ekki rétt að hluta Landssímann niður áður en hann verður seldur þar sem þá fáist lægra verð fyrri hann. Ef að hann hefur slíka innsýn í hug þeirra sem líklegir eru til að kaupa Landssímann í hlutum eða heilu lagi er hann ekki allur þar sem hann er séður. Hin fjórði telur rétt að bíða með sölu á ríkisbanka þar sem hann telur að verðið muni hækka. Hann telur sig sjá fyrir um væntanlegt mat hugsanlegra kaupenda á ríkisbankanum.
Þegar hlutur er seldur er verðið sem greitt er fyrir hann háð mati kaupanda og seljanda. Álit annarra skiptir engu máli, það kemur málinu ekki við, jafnvel þótt því sé útvarpað óumbeðið úr ræðustóli á sjálfu Alþingi. Það er ekki gæfulegt að á þingi virðist vera margir þingmenn sem telja sig geta ákveðið hvað hlutir eigi að kosta. Þeir telja sig með öðrum orðum búa yfir þeirri þekkingu sem dreifð er meðal einstaklinganna og geta þar af leiðandi ákveðið hvað sé rétt verð í viðskiptum sem mismunandi einstaklingar eiga á mismunandi tíma. En þetta kemur svo sem ekki á óvart þar sem sömu þingmenn hafa tekið sér það vald að ákveða hvort fólk fái yfirleitt að stunda viðskipti með ýmsa hluti. Erlendar landbúnaðarafurðir eru nærtækasta dæmið.
Samkeppnisyfirvöld (hver fær ekki hroll þegar þetta orð er nefnt?) hafa bannað Landssímanum að lækka gjaldskrá sína fyrir GSM síma þar sem fyrirtækið búi að ríkisstyrkjum sem það fékk á árum áður. Hér er semsé ein ríkisstofnun að gera tilraun til að lagfæra þann fáránleika sem felst í annarri ríkisstofnun. Ein ríkisafksipti leiða oftast af sér önnur ríkisafskipti. Innflutningshömlur og tollar leiða til umfangsmikils eftirlitskerfis en einnig er nauðsynlegt að hafa undanþágunefndir til að fjalla um ýmsar undanþágur sem önnur nefnd á vegum ríkisins er að endurskoða. Þjónusta ríkisins sem veitt er þiggjendum endurgjaldslaust eykur eftirspurn eftir slíkri þjónustu, biðraðir myndast og kröfur vaxa um aukna þjónustu.