Miðvikudagur 16. júní 1999

167. tbl. 3. árg.

saola.jpg (15289 bytes)
saola.jpg (15289 bytes)

Á heimasíðu umhverfisverndarsamtakanna WWF er sagt frá því að fátækir íbúar þorps í Víetnam hafi nýlega rekist á hið afar sjaldséða sao la í sjálfheldu í gili við við Ho Chi Minh veg. Þar er lýst nokkurri aðdáun á því að fátækir íbúarnir hafi ekki drepið dýrið og etið heldur vísað vísindamönnum og fjölmiðlafólki á það og blessuð skepnan var leyst úr sjálfheldunni undir suði sjónvarpsvéla. Ekki er minnst á að þeir sem fundu dýrið hafi fengið beina borgun fyrir að vísa áhugasömum vísindamönnum og fjölmiðlum á sao la og við skulum gera ráð fyrir að strákarnir, Ta Oi og félagar, sem fundu dýrið hafi ekki fengið annað en þakklæti og myndir af sér í fjölmiðlum um allan heim. Þorp þeirra félaga hefur heldur ekki tapað á þeirri athygli. Sjaldgæf náttúrufyrirbæri laða ferðamenn að, ekki síst náttúruunnendur frá vesturlöndum. Sá sem skrifar um atburðinn á heimasíðu WWF telur hins vegar greinilega að þetta sé til marks um að fólk á þessu svæði sé að læra að meta náttúruna og geti loksins hamið sig þegar það rekst á sunnudagssteik á fæti.

Umhverfisverndarsamtök í velmegunarlöndum virðast oft gera ráð fyrir að það þurfi bara „hugarfarsbreytingu“ til að maðurinn dragi úr nýtingu á gæðum náttúrunnar. Eins og Íslendingar þekkja af áróðri slíkra samtaka gegn hvalveiðum líta þau á þá sem nýta villta dýrastofna sem óalandi og óferjandi en ekki sem fólk sem sýnir sjálfbjargarviðleitni. Umhverfisverndarsamtök virðist engu skipta þótt nýting villtra dýrastofna varði miklu um lífsafkomu fólks. Atlögur þeirra að veiðisamfélögum á Grænlandi og víðar í Norður-Ameríku eru til marks um það. Fólk sem nýtir náttúruna hefur bara ekki „umhverfisvitund“ eða hefur ekki „tileinkað sér græna lífshætti“, að mati þessara samtaka. Þetta er hrokafullt viðhorf. Ástæða þess að við vesturlandabúar getum leyft okkur þann munað að nýta landssvæði til þess eins að njóta útivistar er efnahagsleg staða okkar. En umhverfisverndarsinnar hafa einmitt gagnrýnt hina svonefndu „hagvaxtarhyggju“ sem gerir þeim þó kleift að leika sér úti í náttúrunni og horfa á dýrin án þess að fá vatn í munninn. Freonísskápurinn bíður nefnilega heima knúinn rafmagni úr orkuveri, fullur af ódýrum mat sem framleiddur er með áburðargjöf og erfðabótum og pakkaður í einnota umbúðir. Auðvitað láta umhverfisverndarsinnar eins og ísskápurinn og allt sem í honum er sé óþarfi en staðreyndin er engu að síður sú að án hans væru þeir í sömu sporum og það fólk sem heldur út í náttúruna á hverjum degi – í leit að lífsviðurværi.