Þriðjudagur 15. júní 1999

166. tbl. 3. árg.

Það voru sjónvarpsáhorfendum nokkur vonbrigði að leiðtogar Fylkingarinnar skyldu ekki koma fram í sjónvarpi í gær til að greina frá því hvers vegna þeir töpuðu kosningum til þings ESB. Upp á síðkastið hafa menn á borð við Sighvat Björgvinsson og Össur Skarphéðinsson komið sér í sjónvarpsviðtöl eftir kosningar í Evrópu og yfirleitt talið sig hafa unnið stórsigur. En nú, þegar almenningur í Evrópu hafnaði „þriðju leiðinni“ þeirra Schröders og Blairs, fór lítið fyrir vinstrisinnum hér á landi. Þeir gufuðu upp líkt og fylgi félaga þeirra í ESB.

En þó það yrðu vonbrigði að fá ekki að sjá framan í Sighvat og Össur var fagnaðarefni að skilaboð þessara kosninga eru þau að fólk vill ekki meiri samruna í Evrópu þegar hann þýðir aukna miðstýringu eins og nú er. Þetta var sérlega skýrt í Bretlandi þar sem hugmyndum um að leggja niður pundið og taka upp evru var algerlega hafnað með stórsigri Íhaldsflokksins. Í Þýskalandi var ekki kosið um evruna, en samkvæmt fréttum þýska tímaritsins Focus skilur Schröder niðurstöðuna þó með þeim hætti sem hér er lýst. Hann boðar áherslubreytingu og segist nú ætla að leggja aukna áherslu á viðskipta- og innanlandsmál. Það lítur því út fyrir að andstæðingar aukinnar reglugerðaritunar í Brussel geti andað ögn léttar eftir þessi úrslit.

Samtök iðnaðarins eru ekki ánægð með ýmis afskipti ríkisins af bjórmarkaðnum hér á landi ef marka má

Er þetta áfengisauglýsing?
Er þetta áfengisauglýsing?

grein Sveins Hannessonar framkvæmdastjóra samtakanna í fréttabréfi þeirra nýverið. Sveinn bendir á að ÁTVR sér um umfangsmikið birgðahald og dreifingu sem kemur einkum þeim til góða sem ekki hafi slíkt kerfi fyrir. Sveinn segir að seljendur bjórs ættu sjálfir að sjá um birgðahald og dreifingu til verslana ÁTVR. Þessi ábending Sveins er enn eitt dæmið af neikvæðum afleiðingum þess að ríkið rekur vínbúðir. Yfirleitt eru það neytendur sem verða fyrir barðinu á lélegri þjónustu ÁTVR en framleiðendur og seljendur áfengis hafa einnig þurft að þola hvers kyns dynti í þessu ríkisapparati.

En þetta?
En þetta?

Við þetta bætist, að sögn Sveins, að íslensk lög sem banna áfengisauglýsingar gera íslenskum vínframleiðendum sérlega erfitt fyrir. Óheimilt er að kaupa áfengisauglýsingar í íslensk tímarit, en erlend tímarit eru full af slíkum auglýsingum. Þetta gerir það að verkum að í raun er bannið við áfengisauglýsingum aðeins bann við auglýsingum á innlendri framleiðslu en ekki erlendri. Enda kom það á daginn, segir Sveinn, að þegar hinir íslensku framleiðendur auglýstu vöru sína eftir að þeir töldu sér það heimilt vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur (sem Hæstiréttur síðan hnekkti), þá jókst markaðshlutdeild innlendu framleiðslunnar. Ríkinu tekst því með þessu óeðlilega banni við áfengisauglýsingum að minnka sölu á innlendu víni en ekki erlendu. Er það furðulegt að ríkið, sem oft þykist vilja hjálpa innlendum atvinnuvegum, skuli með þessum hætti þvælast fyrir því að tiltekin atvinnugrein geti dafnað hér á landi.