Mánudagur 14. júní 1999

165. tbl. 3. árg.

Hallinn ekki nægur, er fyrirsögn greinar „Vesturbæings“ í nýjasta KR-blaðinu. Þar kvartar „Vesturbæingur“ yfir því að KR-stúkan sé ekki fullnægjandi, m.a. vegna þess að hún halli ekki nóg, og því þurfi aðra stúku hinum megin við völlinn. Nú er þetta allt gott og blessað og KR-ingar geta auðvitað byggt stúkur án afskipta annarra ef þeim sýnist svo. Hins vegar breytist málið ef aðrir eru látnir greiða fyrir mannvirkið, en sá leiði misskilningur er einmitt uppi meðal KR-inga að þeir hafi byggt þessa ágætu stúku í Skjólunum. Í fyrrnefndri grein „Vesturbæings“ segir t.d. að KR-ingar hafi reist „stúku við völlinn fyrir sjálfsaflafé“. Staðreyndin er sú að KR, líkt og önnur íþróttafélög, fær styrk frá sveitarfélagi sínu til bygginga af þessu tagi. Nemur styrkurinn 80% af kostnaði og fengu KR-ingar þennan styrk vegna stúku sinnar.

KR-ingar byggðu því ekki nema lítinn hluta þessarar stúku, það voru skattgreiðendur sem neyddir voru til að greiða 4/5 hluta stúkunnar. Færu KR-ingar út í byggingu annarrar stúku yrði hið sama uppi á teningnum, skattgreiðendur fengju að borga brúsann hvort sem þeim líkaði betur eða verr.

Í ljósi hallareksturs sveitarfélaganna, þ.m.t. Reykjavíkur, er fyrirsögn „Vesturbæings“ heldur óheppileg. Miklu nær væri að Vesturbæingar eins og aðrir íbúar Reykjavíkur rituðu greinar í blöð undir yfirskriftinni „Hallinn er nægur“ og færu fram á niðurskurð opinberra útgjalda.

Í fréttabréfi VÍB sem fylgdi með Morgunblaðinu í gær er grein sem ber yfirskriftina „Tvö ríki sem bera af í efnahagsmálum á Vesturlöndum“ og fjallar um efnahagsástandið í Bandaríkjunum og á Íslandi. Höfundur greinarinnar sér ýmislegt sameiginlegt með uppgangi í efnahagslífi hér og vestan hafs undanfarin ár. Í greininni segir m.a. um Bandaríkin: „Í Bandaríkjunum er rífandi hagvöxtur, hlutabréf halda áfram að hækka og hækka, atvinnuleysi fer minnkandi og samt er verðbólga minni en hún hefur verið í þrjá áratugi. Ársfjórðung eftir ársfjórðung hefur framvindan verið þessi. Hér áður fyrr hefði hún þótt vera örugg ávísun á vaxandi verðbólgu og hækkandi vexti. En ekki lengur. Alan Greenspan seðlabankastjóri hefur náð að sannfæra marga af kollegum sínum hjá bandaríska seðlabankanum um að mikil framleiðniaukning og aukin alþjóðleg samkeppni, meðal annars á vefnum, nægi til að halda verðbólgu niðri.“

Og um Ísland segir: „Árið 2000 gæti orðið fimmta árið í röð með um 5% hagvexti. Er framleiðniaukning vegna nýrrar tölvutækni að hafa sömu áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga og Bandaríkjamanna? Hagvöxt síðustu ára er að rekja til nýrrar tækni í meira mæli en áður en í minna mæli til aukins vinnuframlags eða nýtingar náttúruauðlinda. Viðskiptahalli er hár en hann er vegna ákvarðana fyrirtækja og einstaklinga en ekki ríkis eða sveitarfélaga. Frelsi í viðskiptum er meira og samkeppni harðari á Íslandi núna en nokkru sinni fyrr. Ef til vill gætir sömu nýbúskaparáhrifa á Íslandi og bandaríski seðlabankinn telur að skýri lága verðbólgu, meiri hagvöxt en áður og lækkandi atvinnuleysi þar.“