Hér á landi hefur lengi verið töluverð umræða um kosti þess og galla að tengja krónuna við erlenda gjaldmiðla. Samkvæmt fréttum í síðustu viku er eitt land í Suður-Ameríku, Argentína, að fara að taka upp Bandaríkjadal en nú þegar er gjaldmiðill landsins tengdur dalnum. Dalurinn hefur ólíkt evrunni, hinum nýja gjaldmiðli Evrópusambandsins, staðið vel upp á síðkastið, en á síðustu 5 mánuðum hefur evran fallið um 10% gagnvart Bandaríkjadal. Þetta eru að sjálfsögðu ekki meðmæli með evrunni en engu að síður er talsvert um það rætt hér á landi að evran leysi íslensku krónuna af hólmi á næstu árum. Af umræðunni um þetta mál hér á landi virðist það sjálfgefið að Íslendingar taki evruna upp en ekki dalinn. Það er ef til vill skiljanlegt þegar kokhreysti þeirra sem standa að evrunni er höfð í huga en þeir voru þess fullvissir að evran myndi leysa Bandaríkjadalinn af hólmi sem helsta viðskiptamynt heimsins.
Melvyn Krauss prófessor emiritus við New York University og rannsóknarfélagi við Hoover Institution ritaði grein í Wall Street Journal í vikunni þar sem hann veltir því fyrir sér af hverju evran hafi fallið svo í verði. Hin fallandi evra sýnir tengslin milli þess hve víðfeðm velferðarkerfi þjóða eru og hvernig gjaldmiðlum þjóða reiðir af á alþjólegum gjaldeyrismörkuðum. Hagvöxtur er lítill í ríkjum með umfangsmikil velferðarkerfi. Stjórnmálamönnum hættir því til þess að fella gjaldmiðilinn í verði í von um að það leiði til mælanlegs hagvaxtar. Hagkerfi velferðarríkja eru ekki sveigjanleg og kröftug og fjárfestar færa því fé sitt til annarra landa sem ekki þurfa að bera umfangsmikil velferðarkerfi og reglugerðafargan. Þetta styrkir gjaldmiðla hagvaxtarlandanna enn frekar í samanburði við gjaldmiðla velferðarríkjanna.
Og Krauss bætir við: Bandaríkin eru ágætt dæmi um land með tiltölulega lítið velferðarkerfi, mikinn hagvöxt, erlendar fjárfestingar, sterkan gjaldmiðil og tilltölulega mikinn viðskiptahalla. (Það er ljóst samkvæmt þessari greiningu að viðskiptahalli er merki um heilbrigðan efnahag). Evrópa hefur á hinn bóginn risavaxið velferðarkerfi, lítinn hagvöxt, útstreymi fjármagns, veikan gjaldmiðil og afgang af viðskiptum við útlönd. Krauss hefur ýmislegt fleira að athuga við evruna. Hann telur til dæmis að það boði ekki gott að aðeins nokkrum mánuðum eftir að evran komst á koppinn hafi Ítalir fengið undanþágu frá þeirri reglu að halda halla á ríkisbúskapnum innan við 2% af landsframleiðslu. Þetta sé til marks um veikleika í efnahagsstjórninni í Evrópu. Jafnvel seðlabankastjóri Evrópu sem telji 10% fall á fimm mánuðum viðunandi árangur viðurkenni að þessi undanþága Ítala grafi undan framtíðarstyrk evrunnar.
Lokaorð Krauss eru þau, að velferðarkerfi evrulandanna og styrk evra séu ósamrýmaleg. Án þess að löndunum takist að minnka umfang velferðarkerfanna séu framtíðarhorfur fyrir evruna ekki góðar.