Föstudagur 11. júní 1999

162. tbl. 3. árg.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur fengið í gegn á Alþingi það hugðarefni sitt að hér verði sett saman „landslið hestamanna“. Þetta stórmál var tímabært og óskiljanlegt hvernig íslensk þjóð hefur komist af án þessa landsliðs um aldir. Hér má ekki horfa í aurinn, reisa verður yfirbyggða reiðvelli ríkisins um allt land fyrir milljarða og aftur milljarða króna til að landsliðið geti haldist í þjálfun árið um kring og verið Guðna og þjóðinni til sóma.

Búkolla
Búkolla

Sérhannaðir búningar á glæsilegum knöpum sem sitja hnarreista fáka er skeiða um á ríkisreknum reiðvegum meðfram þjóðvegum landsins hlýtur einnig að vera hluti af þessari mynd. Og nú bíður alþjóð spennt yfir því að Guðni fullkomni verkið með því að koma næsta hugðarefni sínu fram: Landsliði kúasmala.

Þingmenn eru of fáir á Íslandi ef marka má orð Steingríms J. Sigfússonar í umræðum um stjórnarskrárbreytingar á Alþingi í gær. Tíndi hann ýmislegt til máli sínu til stuðnings, enda er Steingrímur með betri ræðumönnum á þingi. Sagði hann að þegar rúm 20% þingmanna væru ráðherrar og fjöldi annarra væri látlaust í útlöndum að sinna ýmsum erindum auk þess sem margir aðrir hefðu þannig pólitískar skyldur að þeir gætu ekki með góðu móti sinnt þingstörfum, þá væri svo komið að í raun störfuðu ekki nema 30-40 menn á Alþingi. Sagði Steingrímur að þessi fjöldi dygði ekki til að sinna vel öllum þeim störfum sem þingið sinnti nú.

Af þessu dró Steingrímur sem sagt þá ályktun, eins og ætla mátti af stjórnlyndum manni, að þingmenn væru of fáir í dag. Eðlilegri ályktun er hins vegar að Alþingi hafi færst of mikið í fang og fjalli um of vítt svið og reyni að setja of ítarlegar reglur um alla skapaða hluti. Auðvitað má endalaust auka við störf Alþingis með því að láta það skipta sér af hinum ólíklegustu þáttum mannlífsins og þá komast þeir þingmenn sem nú sitja við Austurvöll ef til vill ekki yfir verkið. En hafi Alþingi getu til að takmarka það sem um er fjallað í sölum þess og gefa einstaklingunum sjálfum aukið svigrúm til að njóta sín, þá þarf ekki að fjölga þingmönnum. Þá má þvert á móti fækka þeim.

Einnig kom fram á Alþingi í gær að Ögmundur Jónasson er andvígur þvíað jafna atkvæðisréttinn frá því sem nú er. Hann telur það réttlæta ójafnan atkvæðisrétt að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi auðveldara með að nýta sér ýmsa þjónustu hins opinbera. Vef-Þjóðviljinn tekur undir með Ögmundi að umsvif ríkisins valda alls kyns mismunun. Til dæmis þarf landsbyggðarfólk að greiða skatta sem fara í rekstur leikhúsa og hljómsveita í höfuðborginni og jafnvel eru viðraðar hugmyndir um að leggja 60 þúsund króna skatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu úti á landi til að byggja tónlistarhús í Reykjavík. Það má gjarna draga úr þessum opinberu umsvifum, því myndu Reykvíkingar ekki síður fagna en landsbyggðarfólk. En ein mismunun ríkisins réttlætir ekki aðra. Kosningarétturinn er réttur einstaklingsins og á ekki að vera skiptimynt í harki pólítíkusa um staðsetningu opinberar stofnana.