Fimmtudagur 10. júní 1999

161. tbl. 3. árg.

Hinn nýi þingflokkur Fylkingarinnar leggur til að bensíngjald verði ekki hækkað og vill setja lög þar að lútandi. Þessi afstaða er fagnaðarefni og í samræmi við það sem Vef-Þjóðviljinn hefur haldið fram, þ.e. að álögur á eldsneyti séu allt of háar. Það skýtur hins vegar skökku við að það fólk sem fyrir nokkrum vikum hafði það á stefnuskrá sinni að hækka svokallaða umhverfisskatta skuli nú halda því fram að það óski þess að þeir verði lækkaðir! Margrét talsmaður Frímannsdóttir nefndi meira að segja í sjónvarpi kvöldið fyrir kosningar að ef til vill væri  nóg að breyta nöfnum skatta eins og bensíngjalds og þá væru þeir orðnir umhverfisskattar. Þar með ætti þessi skattahækkun nú að vera Fylkingunni fagnaðarefni. En í stjórnmálum skipta hugsjónir eða skoðanir svo sem ekki alltaf meginmáli og líklega er það þess vegna sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru nú að framkvæma stefnu Fylkingarinnar í andstöðu við Fylkinguna.

Opinberir starfsmenn fóru í gær á fund fjármálaráðherra og lögðu til að skattar yrðu hækkaðir, en það hefur lengi verið draumur foringja þeirra, Ögmundar Jónassonar, ef marka má málflutning hans. Tillagan var reyndar orðuð svo að fæðingarorlof yrði lengt og stofnaður „fæðingarorlofssjóður“ sem hlutfall af launum launafólk skuli fara í. Fjármálaráðherra fagnaði þessari hugmynd opinberra starfsmanna og taldi rétt að hún yrði skoðuð betur. Það er sérkennilegt að hugmyndir um almenna skattahækkun þurfi að taka til sérstakrar skoðunar í fjármálaráðuneytinu þegar þar situr við stjórnvölinn fulltrúi flokks sem kveðst vilja lægri skatta. Auðvitað átti fjármálaráðherra bara að láta þess getið við Ögmund og félaga að skattahækkun kæmi ekki til greina. Þar með ætti tillaga af þessu tagi að vera útrædd.

Hins vegar má að einu leyti fagna hugmyndinni eins og fjármálaráðherra gerir, því hún sýnir svart á hvítu það sem sumir fylgjendur lengra fæðingarorlofs hafa neitað að viðurkenna, en það er að því fylgir óhjákvæmilega skattahækkun. Það er eins með  útgjöld vegna lengra fæðingarorlofs og önnur að einhver verður að borga brúsann og verði þetta framkvæmt mun það í raun koma nákvæmlega eins út fyrir launamenn og bein tekjuskattshækkun.