Miðvikudagur 9. júní 1999

160. tbl. 3. árg.

Fæstum þykir Kína til mikillar fyrirmyndar í efnahagsmálum þótt þar hafi verið losað um ýmis höft á undanförnum árum. Til dæmis mun það vera svo að útlendingar sem vilja reisa álver í Kína þurfa að ganga á milli opinberra embættismanna og stjórnmálamanna til að fá lausn á sínum málum. Þessir embættismenn og pólítíkusar ráða því við hverja er talað og um hvað. Ef þeim dettur í hug að sniðugast sé að byggja álver á Kei Li nesi eða Rey Da firði sitja þeir á spjalli um það árum saman við erlenda fjárfesta. Skattgreiðendur borga brúsann. Opinberar héraðsnefndir reyna að hafa áhrif á gang mála með því að bjóða erlendum fjárfestum í kynningartúra um héraðið sitt. Orkan til framleiðslunnar er svo framleidd í ríkisreknum orkuverum og opinberar nefndir sjá um að semja um verð fyrir orkuna.

Forsætisráðherra óskaði þess í stefnuræðu á Alþingi í gær að olíuverð færi á ný lækkandi og álverð hækkandi. Hvað olíuverðið áhrærir má geta þess að á þriðja áratug aldarinnar var bandarískur verkamaður 30 mínútur að vinna fyrir einu galloni af bensíni en í dag er hann 6 mínútur að því. Í Bandaríkjunum er bensín nú ódýrara en allir aðrir vökvar sem seldir eru í smásölu nema lélegt drykkjarvatn. Það er því ekki óvarlegt að ætla að ósk ráðherrans rætist og bensínið haldi áfram að lækka í verði til neytenda en þó með þeim fyrirvara að ríkisvaldið haldi ekki áfram að auka skattlagningu sína á bensín. Lágt álverð gæti hjálpað til við að halda bensínverði niðri því ál er víða að leysa þyngri málma af hólmi í samgöngutækjum. Með léttari farartækjum minnkar eldsneytiseyðsla þeirra. Það ásamt betri vélum er raunar helsta ástæða þess að orkuþörf hefur ekki aukist að sama skapi og tækjanotkun.