Á morgunverðarfundi Verslunarráðs um einkavæðingu og samkeppni á fjarskiptamarkaði, sem haldinn var í gær, föstudaginn 4. júní, sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, að hann teldi mikilvægt að tryggja vel hið lagalega umhverfi og setja eðlilegar og réttmætar leikreglur áður en ríkið seldi hlut sinn í Landssíma Íslands hf. Hann lýsti yfir vilja sínum til þess að fara hratt í undirbúningsvinnu af þessu tagi, sem fram þyrfti að fara í ráðuneytinu. Fundarmenn vildu fá skýrari yfirlýsingar um afstöðu ráðherrans í þessu efni og var meðal annars vakin athygli á því að eftir því sem salan væri dregin á langinn væri líklegt að verðmæti fyrirtækisins minnkaði. Til dæmis vegna þess að samkeppnisfyrirtæki myndu kaupa til sín hæfasta starfsfólkið þar. Slík þróun væri þegar hafin. Svör ráðherrans voru á þá leið, að hann teldi mikilvægt að velja rétta tímapunktinn fyrir söluna þannig að sem mest fengist fyrir fyrirtækið. Í viðtölum að fundinum loknum kom fram að ráðherrann teldi að það þyrfti að gerast á því kjörtímabili, sem nú er nýhafið. Það ber þó auðvitað að undirstrika að hafi menn á annað borð fallist á að ríkið hætti rekstri ákveðinna ríkisfyrirtækja á það ekki að hafa áhrif á sölu fyrirtækjanna hvort menn telja sig vera að fá sem mest fyrir þau. Einkavæðing er fyrst og fremst aðferð til að auka athafnafrelsi einstaklinganna úti í þjóðfélaginu frekar en tekjuöflunarleið fyrir ríkishítina.
En hér er um mikilvæga yfirlýsingu að ræða af hálfu nýs samgönguráðherra enda tjáir hann sig hér um málið með skýrari hætti heldur en gert var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að sala Landssímans hf. skuli hefjast á kjörtímabilinu. Það er fagnaðarefni að samgönguráðherra skuli sýna því skilning að nauðsynlegt er að þessi sala þurfi að fara fram hið fyrsta, eins og fram kom á morgunverðarfundinum í gær. Framkvæmdahliðin á ekki að þurfa að vera mjög flókin eða tímafrek og mikla reynslu má sækja erlendis frá um framkvæmdina, því ríkissímafélög hafa verði seld út um allan heim á undanförnum árum. Svo er annað sem ætti að hjálpa ráðherranum við þau áform sín að hraða sölunni, en það er að í dag er enginn sem heldur því fram að Landssíminn eigi að vera í höndum ríkisins. Ja, enginn er ef til full sterkt til orða tekið. Ögmundur, Steingrímur og félagar halda uppi merkjum ríkisrekstrarins, en aðrir vinstri menn hafa að þessu leyti kvatt drauminn um þjóðnýtingu og ríkisrekstur eins og aðrar pólitískar hugsjónir sínar.