Fyrir tíu árum snjóaði lítið sem ekkert í Ölpunum heilan vetur. Umhverfisverndarsinnar kenndu auknum gróðurhúsaáhrifum um. Í vetur snjóaði hins vegar meira en gert hefur í 40 ár. Og Greenpeace hefur fundið sökudólginn, já rétt til getið, gróðurhúsaáhrifin. Þetta er í samræmi við annan málflutning sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna um þetta mál en þeir virðast geta flaggað öllum veðurbreytingum máli sínu til stuðnings. Einu gildir hvort hlýnar eða kólnar, blotnar eða þornar, blæs eða lygnir, allt er þetta gróðurhúsaáhrifunum af manna völdum að kenna.
Næstu dagana mun Vef-Þjóðviljinn mæla með nokkrum atriðum í málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar. Fyrst eru það mennta- og menningarmálin:
Í menntamálum þarf að nýta kosti einkaframtaksins í ríkari mæli en nú er gert. Í dag fá kennarar, framleiðendur menntunar, greiðslur frá ríki og sveitarfélögum óháð árangri. Neytendur menntunar, nemendurnir, hafa ekkert val og greiðendur menntunarinnar, foreldrarnir ekki heldur. Útgjöld hins opinbera til skólakerfisins eiga að vera styrkur til neytenda en eru eins og málum er fyrirkomið í dag styrkur til framleiðenda. Ríki og sveitarfélög eiga að hætta rekstri skóla og greiða nemendum styrki til náms. Ekki verður séð að það dragi úr möguleikum þeirra sem minnst efni hafa til náms. Þvert á móti má gera ráð fyrir að samkeppni milli einkarekinna skóla muni skila þeim eins og öðrum meiru en þeir fá í dag.
Í menningarmálum má gjarna taka mark á orðum Birgis Ísleifs Gunnarssonar seðlabankastjóra í fréttum í gær um nauðsyn þess að reka ríkissjóð með verulegum afgangi og greiða niður skuldir. Fjögur þúsund milljónir króna í tónlistarhús og ótalin milljónahundruð í menningarhús hljóta að koma til endurskoðunar. Það viðhorf að menningin eigi að vera rekin af ríkinu og opinberar nefndir eigi að ákveða hvaða rithöfundar og aðrir listamenn eigi að lifa er ógeðfellt. Slík forsjárhyggja og mismunun má hverfa.
Eins og Vef-Þjóðviljinn greindi frá í síðustu viku flytur David Friedman tvo athylgisverða fyrirlestra í Háskóla Íslands á vegum félags hagfræðinema í dag:
Klukkan 12:00 í Lögbergi stofu 101: Public vs. private prosecution |
Klukkan 17:30 í samvinnu við Íslandsbanka í Odda stofu 101: Encryption and online commerce – moving away from a world of monetary sovereignty |