Laugardagur 15. maí 1999

135. tbl. 3. árg.

Í umræðuþætti kvöldið eftir kosningar gleymdu þrír stjórnmálamenn því að óheimilt er að gagnrýna starfsmenn Ríkisútvarpsins, en gagnrýni á fjölmiðlamenn er eins og menn vita tilraun til skoðanakúgunar og merki um hroka og geðveiki. Í þessum þætti sagði Halldór Ásgrímsson að gerð hefði verið aðför að sér vegna tengsla sinna við sjávarútvegsfyrirtæki á Hornafirði, Steingrímur Jóhann Sigfússon var óhress með það hvernig skoðanakannanir voru notaðar til þess að hræða fólk frá því að kjósa Vinstri hreyfinguna og Gunnar Ingi Gunnarsson gagnrýndi Brodda Broddason fréttamann harðlega fyrir að hafa kallað frambjóðendur Frjálslynda flokksins „vandræðamenn“. Dægurmálaútvarp Rásar 2 tók málið fyrir daginn eftir og leitaði til fræðimanns sem það valdi af handahófi úr Háskóla Íslands: Þorbjörns Broddasonar, bróður Brodda Broddasonar.

Stjórnmálamenn eru mismiklir jaxlar. Margir þeirra bera sig reyndar mannalega þegar þeir koma fyrir almenna kjósendur en láta svo eigin sannfæringu mæta afgangi á öðrum vettvangi. Eins og menn vita þenst stjórnkerfi Reykjavíkurborgar nú óðfluga út og á dögunum var ráðið í nýtt embætti „menningarmálastjóra Reykjavíkurborgar“. Borgarráð skipaði í stöðuna og lagði meirihlutinn til að Signý Pálsdóttir yrði ráðin. Við þá afgreiðslu lagði hinn ungi og efnilegi borgarráðsmaður, Helgi Hjörvar, fram eftirfarandi bókun:

„Með fullri virðingu fyrir farsælum störfum Signýjar Pálsdóttur að menningarmálum tel ég hana fráleitt hæfasta umsækjandann um stöðu menningarmálastjóra Reykjavíkurborgar, sbr. hjálagða greinargerð. Bjarni Daníelsson er ótvírætt hæfastur umsækjenda og því tel ég meðmæli menningarmálanefndar byggð á röngum forsendum. Ég kýs því að sitja hjá við afgreiðslu málsins um leið og ég óska nýjum menningarmálastjóra velfarnaðar í starfi.“

Þetta er eiginlega ótrúleg bókun. Helgi telur „fráleitt“ að sá umsækjandi, sem tillaga er gerð um, sé hæfastur. Hann telur „ótvírætt“ að annar tiltekinn umsækjandi sé hæfastur. En hann kýs ekki þennan sem hann telur hæfastan! Borgarfulltrúinn, sem einhver hefði haldið að væri kjörinn til að gæta hagsmuna Reykjavíkur eftir bestu getu, velur ekki þann kost sem hann telur koma borginni best heldur þann sem meirihlutinn gerir tillögu um. Hvernig mun hann bregðast við í öðrum málum? Sitja hjá um „fráleitar“ tillögur? Greiða ekki atkvæði með þeim sem eru „ótvírætt hæfstir“?