Miðvikudagur 12. maí 1999

132. tbl. 3. árg.

Guðjón Arnar Kristjánsson nýkjörinn þingmaður ætlar að segja af sér sem formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hann telur það ekki passa að vera fulltrúi stjórnmálaflokks á þingi um leið og hann þarf að verja hagsmuni félagsmanna í Farmanna- og fiskimannasambandinu sem vafalaust eru margir í öðrum flokkum en Guðjón. Ögmundur Jónasson sem var endurkjörinn á Alþingi nú um helgina er formaður í BSRB. Félagsmenn í BSRB er ekki spurðir hvort þeir vilji yfirleitt vera í þessu félagi. Annað hvort ertu í BSRB eða þú færð ekki viss störf hjá hinu opinbera. Er ekki nóg á það fólk lagt sem kærir sig ekki um þá forræðishyggju sem felst í skylduaðild að félagi þótt í forsvari félagsins sé ekki stjórnmálamaður? Hvernig þætti Ögmundi Jónassyni að vera skyldaður til aðildar að félagi sem Margrét Frímannsdóttir væri formaður (afsakið, talsmaður) fyrir?

Í Vef-Þjóðviljanum í gær var rætt um frelsi forseta Íslands frá greiðslu tekjuskatts. Reiknaðist Vef-Þjóðviljanum til að forsetinn hefði um 935.000 krónur í mánaðartekjur en ekki 580.000 eins og kemur fram í fréttum annarra fjölmiðla þessa dagana. En fleira kemur til. Lífeyrisskuldbindingar þær sem ríkið tekur á sig vegna forsetans eru miklar. Þegar tekið er tillit til þeirra má gera ráð fyrir að laun forsetans séu ígildi um 1.400.000 króna á mánuði. En forsetinn er ekki aðeins undanþeginn tekjuskatti (þ.m.t.. fjármagnstekjuskatti) heldur einnig eignaskatti, virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum. Erfitt er að meta þessi fríðindi í krónum en augljóst að það er mikill búhnykkur að þurfa ekki að greiða óbeina skatta eins og virðisaukaskatt og vörugjöld afnokkrum hlut. Þá getur forsetinn sparað án þess að hafa áhyggjur af fjármagnstekjuskatti og eignaskatti. Eins og bent var á í gær var það vilji forsetaframbjóðandans Ólafs Ragnars Grímssonar að forsetinn greiddi skatta eins og aðrir. Er nokkuð í vegi þess að þingheimur fari að vilja forsetans í þessu máli?  Það er meira að segja til frumvarp um málið frá Pétri Blöndal og Ólafi Hannibalssyni.

Það hefur annars vakið eftirtekt frá því Ólafur Ragnar Grímsson tók við forsetaembætti, að ekki hefur verið boðið upp á grísasteik í ráðherraboðum og öðrum veislum forseta. Þó getur forsetinn fengið virðisaukaskattinn af grískjöti endurgreiddann eins og af öðrum matvælum. Þess er líklega skammt að bíða að kurr fari að heyrast opinberlega úr röðum svínabænda og ekki örgrannt um að mörgum áhugamanninum um svínarækt sé hætt að lítast á blikuna.