Laugardagur 8. maí 1999

128. tbl. 3. árg.

hayek2.jpg (8009 bytes)
hayek2.jpg (8009 bytes)

Í dag eru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Friedrichs Augusts von Hayek. Hayek er þekktastur fyrir skrif sín um hagfræði og fyrir þau fékk hann nóbelsverðlaunin árið 1974. Hayek var sérlega mikilvirkur höfundur á löngum ferli og skrifaði m.a. um hugmyndasögu, heimspeki og sálarfræði auk hagfræðinnar en síðasta bók hans kom út árið 1989. Hann lést árið 1992.

Rauði þráðurinn í skrifum Hayeks er takmörk þekkingar manna og hvernig mennirnir geta best lifað í félagi við hvern annan að gefnum þeim takmörkunum sem þekkingin setur. Þennan áhuga Hayeks á takmörkunum þekkingar má rekja til afskipta hans af deilunni um altækan áætlunarbúskap, en kommúnistar og þjóðernis sósíalistar boðuðu á fyrri hluta aldarinnar að í stað markaðsbúskapar skyldi ríkið með áætlunarráðum sínum segja til um hver skyldi framleiða hvað og til hverra afraksturinn skyldi renna. Vinur Hayeks og vinnufélagi Ludwig von Mises greiddi þessari hugmynd fræðilegt náðarhögg með ritgerð árið 1920 þar sem hann benti á að slíkt ráð gæti ekki stuðst við verð og því gætu áætlanirnar ekki haft neitt sameiginlegt viðmið.

Í dag eru þessi rök almennt viðurkennd en því miður lifði Mises ekki að sjá þann dag, hann lést árið 1973 svo gott sem gleymdur. Þetta innsæi varð Hayek efniviður í skrif um bæði hagfræði og stjórnmál sem síðar hefur orðið grunnur fyrir fjölda annara fræðimanna til að bregða ljósi á hin ýmsu viðfangefni. Í ritgerð sinni Economics and knowledge frá árinu 1933, komst Hayek svo að orði: „Við þurfum að rannsaka viðfangsefni sem kalla má verkaskiptingu þekkingarinnar sem er sambærilegt við verkaskiptingu vinnunar. Þótt hið síðarnefnda hafi verið megin viðfangsefni hagfræðinnar frá upphafi hefur hinu fyrra ekki verið sinnt þó mér virðist það vera megin viðfangsefni hagfræðinnar sem félagsvísinda. Vandamálið sem við reynum að leysa er hvernig sjálfsprottin samskipti fjölda manna, sem hver um sig býr yfir takmarkaðri þekkingu, leiðir til niðurstöðu … sem einungis hefði verið hægt að koma vísvitandi á af einhverjum sem byggi yfir samanlagðri þekkingu allra einstaklinganna.“ Það sem Hayek vísar til í þessarri málsgrein er hvernig t.a.m. verð í markaðsviðskiptum fela í sér skilaboð, þannig segir t.d. verð á kaffi okkur til um framboð og eftirspurn á kaffi á hverjum tíma án þess að fara þurfi út í neyslumynstur neytenda eða veður og uppskeru hjá framleiðendum. Og það var einmitt slík þekking sem Ludwig von Mises benti á að áætlunarráð ríkisins gætu ekki stuðst við. Það neitar því enginn að áætlunarráð geti valið sér eitthvert viðmið og hámarkað það, en þar sem verð er samnefnari allra þeirra þátta sem áhrif hafa á framleiðslu og eftirspurn leiðir það til skynsamlegustu niðurstöðu.

Í Leiðinni til ánauðar benti Hayek á að ef ríkið ætlar að ákveða hvernig framleiðslunni er hagað, er því ekki nóg að ráða framleiðslunni, þ.e. framboðinu, heldur verður það einnig að stýra eftirspurninni. Eða eins og nútíma hagfræðingar myndu líkast til kalla það, þá verður ríkið að þjóðnýta nytjaföll manna. Því getur ríki sem ætlar að stýra framleiðslunni ekki unnt mönnum frelsis ef það ætlar að stilla saman strengi framboðs og eftirspurnar.

Upplýsingagildi verðs er ekki einungis rök gegn altækum áætlunarbúskap heldur afskiptum ríkisins af atvinnulífinu almennt. Lærdómurinn sem Hayek dregur af því er að ætli menn að grípa til afskipta beri að haga þeim þannig að þau séu sem almennust og hafi sem minnst áhrif á verðmyndum. Í bók sinni The Constitution of Liberty segir hann: „Það er fremur eðli ríkisafskipta en umfang þeirra sem skiptir máli. Starfhæfur markaður gerir ráð fyrir ákveðnum athöfnum af hálfu ríkisins … þar af leiðir, að ríkisstjórn sem er tiltölulega afskiptalítil, en gerir ranga hluti, getur gert meira ógagn, en tiltölulega virk ríkisstjórn sem heldur sig við að hlúa að sjálfsprottnu skipulagi.“

Hayek aðhylltist skipulag einstaklingsfrelsis og séreignarréttar því það gefur sem flestum tækifæri til að reyna fyrir sér, þroska einstæða hæfileika sína með því að reka sig á og sigrast á erfiðleikum. Í The Constitution of Liberty segir hann: „Framþróun er hreyfing fyrir hreyfingarinnar sakir, því það er með því að læra af afleiðingum gjörða sinna sem maðurinn nýtur ávaxta greindar sinnar.“

Þótt margt hafi breyst síðan Hayek hóf fyrst að skrifa um þjóðfélagsmál, er áminning hans um takmörk þekkingar mannanna alveg jafn þörf í dag og þá. Og það sést að hann hefur haft árangur sem erfiði með skrifum sínum, því að þótt stjórnmálamenn séu stjórnlyndir í dag að þá hefur tilhneiging þeirra til að hunsa skilaboð markaðarins minnkað.

Í dag verður gengið til alþingiskosninga.
Þegar kosið er vonar Vef-Þjóðviljinn að menn hafi nokkra skemmtun af, því kosningaloforð stjórnmálaflokkanna munu án nokkurs vafa gera kosningarnar að dýrustu skemmtun ársins.