Framsóknarmenn og fleiri hafa boðað það að skattleggja söluhagnað kvóta þegar útgerðarmenn hætta í greininni. Sömu menn hafa talið það bagalegt hve erfitt sé fyrri nýja menn að komast inn í greinina. Ef sérstökum skatti verður bætt við söluverð kvóta má gera ráð fyrir því að kvótaverð hækki. Mun það auðvelda nýjum mönnum aðgang?
Frambjóðendur Þjóðvaka á Austurlandi sendu ungu fólki, sem flust hefur af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar, kaldar kveðjur í fréttum Stöðvar 2 í gær. Gunnlaugur Stefánsson sagði á vinnustaðafundi að þessi kosningabarátta snerist um að snúa byggðaþróuninni við. Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að Gunnlaugur reynir ekki að nota gömlu lummuna byggðaröskun lengur, heldur viðurkennir að hér er um þróun að ræða. Hér birtist því grímulaus forræðishyggja klerksins. Ungt fólk sem fæðst hefur á landsbyggðinni og leitað sér sérhæfðar menntunar sem það getur ekki nýtt úti á landi getur því væntanlega átt von á að því verði snúið út á land á ný.
Endurvinnsla er vinsælt glamuryrði meðal stjórnmálamanna. En eins Vef-Þjóðviljinn benti á fyrir borgarstjórnarkosningar á síðasta ári láta sumir pólítíkusar ekki þar við sitja heldur láta verkin tala. Þannig endurunnu bæði Hrannar B. Arnarsson, Árni Þór Sigurðsson og Guðrún Ágústsdóttir greinar sem þau höfðu áður birt og birtu á ný nær óbreyttar, lesendum DV og Morgunblaðsins til mikillir ánægju. Nú hefur frambjóðandi Þjóðvaka á Suðurlandi Björgvin Sigurðsson bætt um betur því í gær birtist grein hans Náttúran njóti vafans í Degi en nákvæmlega sama grein birtist einmitt í DV í fyrradag.
Svonefndir umhverfisverndarsinnar eða græningjar hafa það orð á sér að vera miklir hugsjónamenn og láta ekki hugsjónir sínar lönd og leið þótt valdastólar séu í boði. Frambjóðendur Vinstri flokksins græns framboðs hafa mælt gegn loftárásum NATO á stríðsvél serbnsska þjóðernissósíalistans Milosevics. Sömu sögu er að segja af flestum græningjum í Evrópu. Nema einum. Hann heitir Joschka Fischer og er utanríkisráðherra Þýskalands.