Guðmundur Ólafsson lektor í hagfræði við Háskóla Íslands tók þátt í starfi Alþýðuflokks og Þjóðvaka á síðasta kjörtímabili. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var hann inntur álits á því hvort góðærið væri að syngja sitt síðasta og hvort viðskiptahallinn væri tifandi tímasprengja en um það hefur doktor Össur Skarphéðinsson sett fram kenningu. Guðmundur taldi ekki hægt að taka svo djúpt í árinni og bætti svo við að ef einhver tímasprengja væri í íslensku efnahagslífi þá væri það helst að búið væri að sameina í einn stjórnmálaflokk allt vitlausasta fólk landsins í efnahagsmálum.
Hvað hefur hinn nýi Þjóðvaki annars á móti litlum útgerðum sem standa höllum fæti vítt og breitt um landið? Í fyrsta lagi ætlar Þjóðvakinn að taka aflaheimildir af útgerðum um land allt og bjóða þær upp, þ.e. láta útgerðirnar kaupa þær aftur en þá er líklegt að stóru útgerðirnar næli í stærstu bitana. Í annan stað á að leggja á auðlindagjald. Í þriðja lagi á að leggja á almennan koldíoxíðskatt sem leggst að sjálfsögðu á útgerð allra báta nema seglskipa og árabáta. Að lokum ætlar hinn nýi Þjóðvaki að hækka tryggingargjald sem er launaskattur sem útgerðin greiðir. Var ekki einhvern tímann sagt að vinstri menn mættu ekkert aumt sjá án þess að skattleggja það?
Í umræðuþætti á Skjá 1 í gærkvöldi voru frambjóðendur hins nýja Þjóðvaka spurðir um það hvað búast mætti við miklum hækkunum á bensíni á fjölskyldubílinn vegna hins almenna koldíoxíðskatts sem hann ætlar að leggja á. Þessu gátu frambjóðendurnir ekki svarað. Ekki frekar en Jóhanna Sigurðardóttir í sjónvarpsumræðum um helgina.
Ef hinn nýi Þjóðvaki nær fram því markmiði sínu að hækka bensínverðið með koldíoxíðskatti gerist einkum þetta:. Fólk sem verður að gera út bíl, til dæmis fólk sem þarf að koma mörgum börnum í og úr skóla og leikskóla, verður fyrir skattahækkun. Þessi skattahækkun seinkar því svo að fólkið geti endurnýjað bíla sína. Nýir bílar menga minna en gamlir og því er alls ekki sjálfgefið að koldíoxíðskattur Þjóðvakans dragi úr útblæstri koldíoxíðs.
Verð á bensíni er nú þegar svo hátt vegna gríðarlegrar skattheimtu að líklegt er að nær öll hamlandi áhrif gegn bílanotkun sem ná má fram með skattlagningu séu þegar komin fram.
Vef-Þjóðviljinn er rekinn fyrir frjáls framlög lesenda. Öll kynning á Vef-Þjóðviljanum er til dæmis greidd með slíkum framlögum. Hér getur þú slegist í hóp þeirra sem standa undir kostnaði við útgáfuna.