Össur Skarphéðinsson, sem fengið hefur tímabundið leyfi til að tala fyrir hönd hins nýja Þjóðvaka, hélt því fram í fréttum Stöðvar 2 í gær að það hefðu verið mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta á einstaklinga yfir línuna. Þetta þýðir væntanlega að ef hinn nýi Þjóðvaki kemst í ríkisstjórn mun hann hækka skatta á einstaklinga að nýju en það væri í samræmi við þá staðreynd að á árunum 1988 – 1991 þegar Þjóðvakaflokkarnir mynduðu ríkisstjórn með Framsóknarflokknum hækkaði tekjuskattshlutfall einstaklinga úr 35,20 í 39,79% eða um 13%. Á síðasta kjörtímabili (þegar Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks) hækkaði hlutfallið svo í 41,93% eða um 5,4% en þá voru greiðslur í lífeyrissjóð jafnframt undanþegnar skatti að hluta. Eins og launþegar vita er hlutfallið nú, þegar þjóðin hefur verið laus við Þjóðvakaflokkana í fjögur ár, 38,34% (og væri 38,01% ef R-listinn hefði ekki hækkað útsvarið) og auk þess er allur lífeyrissparnaður undanþeginn skattinum.
Finnur Ingólfsson vakti á því athygli í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu í gær að hinn nýi Þjóðvaki boðar aukna tekjuöflun ríkissjóðs með umhverfissköttum. Hann spurði Jóhönnu Sigurðardóttur (já, hún fékk líka leyfi til að tala fyrir Þjóðvaka í gær) að því hversu mikið almenningur mætti búast við því að fjölskyldubíllinn, bensínið á hann, raforkuverð og olía á trillur og aðra fiskibáta myndi hækka þegar umhverfisskattarnir hefðu verið lagðir á. Því miður gat Jóhanna ekki svarað þessum spurningum.
Ögmundur Jónasson var einnig í þessum umræðuþætti og benti á þann meginmun sem væri á Vinstra grænu framboði og stjórnarflokkunum. Sá munur er nefnilega, að mati Ögmundar, að stjórnarflokkarnir vilja að einstaklingarnir greiði kostnaðinn við þjónustu hins opinbera en VG vill að hinir sameiginlegu sjóðir greiði kostnaðinn!