Úrgangur er yfirleitt ekki ofarlega á vinsældarlistum, hvorki hjá einstaklingum, fyrirtækjum né stjórnvöldum. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að það er undantekningarlítið kostnaðarsamt að losna við hann. Þegar sorp er urðað þarf oft að að flytja það um langan veg og landið sem fer undir sorpið verður verðminna en áður. Þekking manna á urðun hefur að vísu aukist mjög á undaförnum áratugum og nú er ekkert því til fyrirstöðu að nýta sorphauga undir ákveðin mannvirki eftir að gengið hefur verið tryggilega frá þeim. Þetta hefur m.a. verið gert á Gufunesi í Reykjavík.
Hinn kosturinn er að endurnýta sorpið (þ.e. nota það til annars en landfyllingar). Þá þarf líka að flytja það langar leiðir, jafnvel milli landa. Pappi sem almenningur er látinn safna saman á heimilum og aka með á gámastöðvar er til dæmis sendur úr landi til endurvinnslu með ærnum tilkostnaði. Endurvinnsla er því alls ekki ókeypis og oft mun dýrari kostur en urðun. Endurvinnslan sjálft einnig krefst orku og efnameðhöndlunar eins og önnur framleiðsla. Endurvinnsla getur því verið mun meira mengandi en urðun.
En hvernig eigum við að gera það upp við okkur hvort rétt sé að endurvinna eða urða sorp? Sjálfsagt telja ýmsir (ekki síst sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar) svarið við þessari spurningu einfalt: Við verðum að endurvinna til að heimurinn drukkni ekki í sorpi. En svarið er ekki svona einfalt. Það er afar misjafnt hve land undir urðun er aðgengilegt. Í Bandaríkjunum sem eru þekkt fyrir að vera mesta neysluþjóðfélag í heimi er talið að til þess að farga öllu sorði sem fellur þar til á næstu öld þurfi 100 metra djúpa holu sem nær yfir 0,002% af öllu landi. Hér á landi er staðan sjálfsagt svipuð og í Bandaríkjunum en í þéttbýlum löndum getur dæmið litið öðru vísi út.
Eina leiðin til að komast að því hvor leiðin er hagstæðari, þ.e. með hvorri aðferðinni við hlífum auðlindum jarðar betur, er að hið opinbera hætti að skipta sér af þessum málum. Með því að einkavæða sorphirðu, urðun og endurvinnslu má komast að því hvaða kostur er hagstæðastur hverju sinni. Það ætti að vera sjálfskipuðum umhverfisverndarsinnum keppikefli að hagstæðasti kosturinn sé nýttur hverju sinni. Þ.e. ef þeir meina eitthvað með því sem þeir segja.