Hver eru helstu umhverfisvandamál okkar Íslendinga? Mengun hafsins? Uppblástur á hálendinu? Loftmengun á kyrrviðrisdögum í Reykjavík? Aðsteðjandi hætta vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa? Líklega eru vandamálin ekki mikið fleiri sem koma í huga fólks við stutta umhugsun. Ýmsir mundu vart telja neitt af þessu til vandamála. Mengun hafsins sé áhyggjuefni sem við þurfum að sporna gegn en ekki vandamál enn sem komið er. Uppblástur á hálendinu muni minnka þegar ríkisstyrkir til landbúnaðar minnka og þar með beitarálag. Loftmengun á kyrrviðrisdögum í Reykjavík sé ekki óeðlilegur fylgifiskur þess að búa í borg. Og aukin gróðurhúsaáhrif séu vafasöm fræði, hlýnun sem spáð hafa verið hafi staðið á sér og ekki sé ljóst hvort hlýnun sé til góðs eða ills. En gefum okkur að öll þessi mál séu vandamál. Hvað eiga þau þá sameiginlegt?
Þau lúta öll að mengun á almenningum. Hafið, almenningar á hálendinu og andrúmsloftið eru án eigenda. Í stjórnarskrá Sovétríkjanna var skýrt tekið fram að vernda bæri umhverfið. Engu að síður var ástand umhverfismála í Sovétríkjunum við hrun þeirra hrikalegt. Fá dæmi eru um aðra eins umgengni. Þetta kemur ekki á óvart í landi þar sem eignarréttur einstaklinga og einkafyrirtækja var nær óþekktur. Það er lítið mál nú til dags að skilgreina og vernda eignarrétt á landi. Ódýr girðingarefni gera mönnum auðvelt að gæta landssvæða sinna. Hafið er vissulega erfiðara viðfangs en menn hafa mikla reynslu af því að tryggja ár og vötn fyrir óboðnum gestum og ágreiningsefni um ár og vötn í eigu margra einstaklinga eru leyst með stofnun félaga eða fyrir dómstólum. Kvótakerfið íslenska er dæmi um það hvernig skipta má sjávarnytjum á milli einstaklinga og fyrirtækja þannig að það verði hagur þessara aðila að vernda hafið fyrir mengun. Rétt eins og laxveiðibændur gera í ám sínum. Þetta er vafalaust ein besta aðferðin til að tryggja góða umgengni á hafinu.
Andrúmsloftið er erfiðast viðfangs. Mjög lítil hefð er fyrir eignarrétti á andrúmsloftinu og erfitt að skilgreina slíkan rétt. Þess vegna kemur ekki á óvart að mengun í andrúmsloftinu verður helst til umræðu á næstu árum eins og undanfarin ár. Svonefndir mengunarkvótar eru þó skref í þá átt að skilgreina nýtingarrétt á andrúmsloftinu. Þeir hafa þann kost umfram reglugerðir og umhverfisskatta að fyrirtæki sem þurfa að leggja í mikinn kostnað til að draga úr mengun geta keypt kvóta af fyrirtækjum sem eiga auðvelt með að draga úr útblæstri mengandi lofttegunda. Reglugerð sem kveður á um að allir skuli draga svo og svo mikið úr útblæstri gerir hins vegar út af við sum fyrirtæki (sem flytja þá ef til vill til annarra landa þar sem reglur eru ekki eins strangar) án þess að menn nái endilega betri árangri. Skattar á mengun hafa sama galla og reglugerðirnar. Þeir geta orðið til þess að fyrirtæki flytja til annarra landa þar sem lakari tækni er notuð til framleiðslunnar og orkuframleiðslunnar. Mengun andrúmsloftsins getur því aukist í kjölfar reglugerða og umhverfisskatta. Skýr eignarréttur er besta umhverfisverndin.