Helgarsprokið 28. mars 1999

87. tbl. 3. árg.

Verslunarráð Íslands hefur á undanförnum vikum haldið tvo morgunverðarfundi þar sem athyglinni hefur verið beint að möguleikum á einkavæðingu og samkeppni á tveimur sviðum, sem til þessa hafa að langmestu leyti verið á forræði hins opinbera. Fyrri fundurinn var um einkavæðingu og samkeppni í orkumálum og sá síðari um sams konar breytingar í póstþjónustu.
    
Á báðum fundunum kom fram mikill áhugi á skipulagsbreytingum á þessum mikilvægu sviðum, sem snerta alla landsmenn með margvíslegu móti. Ljóst er að menn vilja fara misjafnlega hratt í breytingarnar og hafa mismunandi hugmyndir um það hvernig standa beri að þeim. Það vekur hins vegar athygli að á fundunum heyrðust ekki þau sjónarmið, að viðhalda beri núverandi fyrirkomulagi og orkumál og póstþjónusta eigi áfram að vera að öllu leyti starfrækt af opinberum fyrirtækjum sem njóti áfram einkaréttar og sérleyfa. Ekki einu sinni þeir stjórnmálamenn og embættismenn sem tóku til máls á fundunum gerðu ráð fyrir óbreyttu ástandi eða mæltu því bót. Sýnir þetta verulega hugarfarsbreytingu frá því fyrir fáum árum, þegar ekki mátti minnast á einkavæðingu og samkeppni án þess að upp risu stórir hópar, sem héldu því fram að mikil þjóðarvá vofði yfir ef ríkið drægi sig út úr rekstri fyrirtækja og stofnana og töldu að þjónusta þeirra myndi annað hvort leggjast af eða verða bæði verri og dýrari, starfsmennirnir atvinnulausir og þjóðin í heild fátækari.

Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að þessar hrakspár voru með öllu ástæðulausar og einkavæðing og aukin samkeppni hefur í senn bætt reksturinn og hag starfsmanna, þjónusta við neytendur hefur batnað og hagur ríkissjóðs vænkast. Sífellt fleiri landsmenn gera sér grein fyrir þessum staðreyndum og því verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir félagshyggjuforkólfa innan og utan svokallaðrar Samfylkingar að telja fólki trú um að einkavæðing sé aðeins aðferð spilltra stjórnmálamanna til að færa verðmæti frá þjóðinni til fárra auðmanna og stórfyrirtækja. Reynslan sýnir annað.
    
Morgunverðarfundir Verslunarráðsins, sem vikið var að hér að framan, sýna ekki bara almenna hugarfarsbreytingu gagnvart einkavæðingu og samkeppni. Þeir sýna líka, að menn eru nú farnir að velta fyrir sér hugmyndum um að nýta kosti markaðskerfisins á fleiri sviðum en áður hefur verið rætt um. Bæði póstþjónusta og starfsemi orkufyrirtækja eru þættir, sem jafnan eru taldar til grunngerðar eða innviða samfélagsins. Allir eru sammála um að þetta eru ómissandi þættir og þjónusta fyrirtækja á þessum sviðum þar af leiðandi gríðarlega mikilvæg, en á hinn bóginn eru sífellt fleiri að átta sig á því að þar með er ekki sagt að óhjákvæmilegt sé að hið opinbera eigi og reki fyrirtækin sem starfa á þessum vettvangi. Vegna mikilvægis þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir, er ljóst að vanda verður vel til verka þegar ráðist verður í skipulagsbreytingar og síðan sölu fyrirtækjanna. Hins vegar mega stjórnmálamenn ekki hræðast breytingarnar eða tefja þær úr hófi, því það eru hagsmunir landsmanna allra að kostir markaðarins, aukin hagkvæmni í rekstri og betri þjónusta, komi sem fyrst til sögunnar á sviði orkumála og póstþjónustu.