Eins og menn muna var hvergi farið fegurri orðum um lýðræði og frelsi en í stjórnarskrá Sovétríkjanna. Og lýðræði var hvergi minna en þar. Hér á landi tala engir meira um lýðræði en vinstri menn þjóðvakanna. Og lýðræðið á þeim bæ er eins og menn þekkja. Í prófkjöri R-listans í fyrra fékk Guðrún Ágústsdóttir flest atkvæði allra frambjóðenda í 1. sæti og var því sett í 5. sæti listans. Í sama prófkjöri fékk Árni Þór Sigurðsson miklu fleiri atkvæði en Alfreð Þorsteinsson og Helgi Pétursson. Þeir voru þá hafðir í 6. og 7. sæti en Árni Þór í 10. sæti. Alfreð og Helgi eru nú borgarfulltrúar en Árni Þór er aðstoðarkona borgarstjóra. Í nýliðnu prófkjöri Þjóðvaka í stærsta kjördæmi landsins fékk Jóhanna Sigurðardóttir langflest atkvæði í fyrsta sæti. Daginn eftir var Margrét Sæunn Frímannsdóttir, frambjóðandi á Suðurlandi, þar sem ekkert prófkjör var haldið, orðin að talsmanni flokksins, skipuð af Sighvati Björgvinssyni einum.
Og á dögunum héldu Þjóðvakamenn prófkjör á Norðurlandi-eystra. Þar varð Sigbjörn Gunnarsson í efsta sæti en Svanfríður Jónasdóttir númer þrjú. Flokkseigendur voru ekki alveg sáttir við þessa niðurstöðu kjósenda og létu telja upp á nýtt. En sama niðurstaða varð; Sigbjörn fékk einfaldlega flest atkvæði. Og nú hefur verið ákveðið að Svanfríður verði númer eitt en Sigbjörn númer ekki neitt.
En við minnum á að Þjóðvaki er lýðræðisleg hreyfing fólksins. Með ákveðnum greini.