Hávar Sigurjónsson, sem í Morgunblaðsgrein um daginn hélt því gegn manni að sá hét ekki merkilegra nafni en Jón Jónsson, skeiðar fram á ritvöllinn að nýju í gær og segir m.a.: Ekki á að hika við að setja niður skýra löggjöf um lágmarks hlutfall íslensks efnis í dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva. Gott og vel. Segjum nú að sett verði lög sem skylda Hávar Sigurjónsson til að kaupa eitt íslenskt tímarit í hvert sinn sem hann kaupir erlent tímarit. Þótt Vef-Þjóðviljinn eigi bágt með að setja sig í spor þeirra manna sem gera athugasemdir við nafnið Jón Jónsson þá er ekki ólíklegt að Hávar myndi kaupa ódýrasta íslenska tímaritið í hvert sinn sem hann keypti erlent tímarit. Það sama munu íslenskar sjónvarpsstöðvar gera ef þær verða skyldaðar til að hafa ákveðið hlutfall íslensks efnis í dagskránni. Þær munu kaupa ódýra íslenska leiðindaþætti og sýna þá á versta tíma svo áfram verði hægt að sýna vinsælu erlendu þættina á þeim tíma sem fólk horfir á sjónvarp. Valdboð um íslenskt sjónvarpsefni hefði því engin áhrif á það hversu mikið menn horfa á íslenskt sjónvarpsefni. Það myndi hins vegar auka kostnað sjónvarpsstöðvanna og þá allt eins hafa þau áhrif að þær yrðu að draga úr kaupum sínum á nýju íslensku sjónvarpsefni.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ritar grein í Morgunblaðið í gær um ástæður þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að undirrita ekki Kyoto bókunina að svo komnu máli. Þessi grein tekur mörgum öðrum fram sem birst hafa undanfarið um þetta mál. Halldór bendir meðal annars á að Íslendingar hafi nú þegar náð hámarksárangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda enda er nær öll húshitun og rafmagnsframleiðsla án bruna jarðefnaeldsneytis. Ef við hefðum ekki verið búin að ná þessum árangri fyrir árið 1990 væri staða okkar betri nú gagnvart Kyoto bókuninni þótt við værum búin að losa mun meira af gróðurhúsalofttegundum! Halldór bendir einnig á að við verðum að bíða eftir frekari þróun á nýrri tækni til að geta dregið úr bruna jarðefnaeldsneytis í samgöngum og fiskveiðum. Kostnaðurinn við aðrar vélar en olíuknúnar er enn sem komið er óyfirstíganlegur.
Halldór sendir þeim sem harðast hafa deilt á ákvörðun ríkisstjórnarinnar svo þessi orð: Hér á landi hafa ýmsir reynt að misnota umræðuna um loftslagsbreytingar í baráttu sinni gegn stóriðju og hvatt til þess að Ísland bindi hendur sínar í alþjóðasamningi. Athygli vekur að í þessum hópi eru menn sem hafa sérstaklega varað við því í öðru samhengi að að Ísland yrði háð yfirþjóðlegu valdi. Tvískinnungurinn er augljós.