Menningarhúsin svokölluðu, sem ríkisstjórnin hyggst reisa í nokkrum bæjarfélögum á landsbyggðinni, fá heldur dræmar undirtektir þar. Nú hafa Siglufjarðarbær og Ísafjarðarbær mótmælt því að slíku húsi verði komið fyrir í þeim bæjum og telja að fjármununum væri betur varið í annað. Það er heldur óvenjulegt að ríkisvaldið ætli að þröngva skattfé upp á aðila sem kæra sig ekki um það, en að því hlaut auðvitað að koma í öllu útgjaldaflóði hins opinbera.
Þetta ætti að verða öðrum sveitarfélögum hvatning til að mótmæla sóun ríkisins í sveitarfélögum þeirra, enda hagsmunir bæjarbúa augljóslega frekar þeir að lækka skatta en sóa skattfé. Þannig mætti Reykjavíkurborg nú mótmæla þeim áformum menntamálaráðuneytisins að reisa menningarhús í Reykjavík. Fjármunirnir sem fara eiga í þetta menningarhús, tónlistarhúsið títtrædda, væru vitaskuld betur komnir í vösum skattgreiðenda sem gætu þá gert það við þessa fjármuni sem þá langaði mest til. Ef nógu marga langar mikið á tónleika í nýju húsi er hægt að byggja það, annars fara fjármunirnir í aðra og hagkvæmari uppbyggingu.
Til dæmis er einstaklega hagstætt að styrkja Vef-Þjóðviljann með frjálsu framlagi. Enda lifir útgáfan eingöngu á slíkum framlögum.
Jafnréttismál voru til umræðu á fundi Heimdallar í gærkvöldi. Einn ræðumanna, Helgi Tómasson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og fyrrum starfsmaður kjararannsóknarnefndar útskýrði erfiðleikana við að bera saman laun karla og kvenna. Í máli hans kom fram að þau meðaltöl sem notuð eru til að bera launin saman eru lítt eða ekki marktæk. Hann sagði jafnframt að hann teldi þann launamun sem oft er talað um að sé á milli karla og kvenna væri að minnsta kosti mun minni en yfirleitt er látið í veðri vaka og bætti raunar um betur og sagðist ekki treysta sér til að segja til um að nokkur launamunur væri hér á landi.
Það sem veldur þeim misskilningi að hér sé einhver eða jafnvel verulegur launamunur eru erfiðleikar í samanburði. Það sem verður að gera þegar verið er að bera saman tvo hópa er að taka tillit til skekkju sem verður af völdum þátta eins og vinnutíma, stöðu, aldurs og svo framvegis. Þegar þetta hefur verið gert er í versta falli afar lítill mælanlegur munur eftir á milli kynja. Að mati Helga er þessi munur sem sagt svo lítill að ekki er hægt að fullyrða nokkuð um hvort raunverulegur launamunur er á milli kynjanna. Þetta eru óneitanlega afar merkilegar niðurstöður og væri full ástæða fyrir fréttamenn að kynna sér þær áður en þeir fjalla næst um launamuninn og til hvaða aðgerða skuli grípa til að leiðrétta hann.