Fimmtudagur 25. febrúar 1999

56. tbl. 3. árg.

Ódýrari kartöfluflögur hér á landi og ódýrari hross í Noregi urðu til þess að Samtök Iðnaðarins risu upp á afturlappirnar og mótmæltu. Ástæða þessara lækkana er samningur landbúnaðarráðuneytisins við Norðmenn um að fella niður tolla á tilteknu magni þessara vara, en þar sem þetta teljast landbúnaðarvörur falla þær ekki undir EES samninginn. Málflutningur Samtaka iðnaðarins hljómar eins og rödd aftan úr grárri forneskju og er furðulegt að slíkar raddir skuli enn heyrast. Það verða að teljast sérkennilegir og ótrúlega þröngir sérhagsmunir sem þessi samtök berjast fyrir þegar þau eru farin að mótmæla tollalækkunum á neysluvarning og þar með auknu frelsi í viðskiptum. Samtök sem þessi ættu að hafa skilning á því að atvinnulífið þarf ekki síður en neytendur á frjálsum viðskiptum að halda.

En fyrst þessi samtök kjósa að vinna gegn frjálsum viðskiptum og vinna að hærra vöruverði til neytenda hljóta neytendur, sem eru jú líka skattgreiðendur, að hugsa sig um þegar þeir velta því fyrir sér að hátt í eitt hundrað milljónir króna af skattfé fara til þessara samtaka. Hvernig má það vera að skattgreiðendur séu látnir styrkja sérhagsmunasamtök með þessum hætti? Það er vitaskuld sama forneskjan og málflutningur þessara samtaka iðnaðarins og hvort tveggja hlýtur brátt að heyra sögunni til.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að vinstri menn í bræðingnum leggja mikið á sig til að virðast sameinaðir eftir áratuga klofning. Þó er öllum ljóst, a.m.k. þeim sem utan þessa hrærigrauts standa, að þeir eru jafn klofnir og sundurlyndir og þeir hafa alltaf verið. Dæmi þessa sjást daglega og í gær mátti til dæmis sjá tvö. Í Morgunblaðið skrifaði Heimir Már Pétursson skrifstofulaus framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins grein þar sem hann jós skömmum yfir Hjörleif Guttormsson og félaga hans í rauðgræna framboðinu. Hann lét sér ekki nægja að segja þá hafa svikið hugsjónir sínar, heldur kaus hann að reyna að niðurlægja þessa fyrrum félaga sína enn frekar með því að uppnefna þá Rauðgrana.

Margrét Frímannsdóttir formaður afgangs Alþýðubandalagsins skaut líka á gamla félaga sína í gær, en hún sagði „umhugsunarvert að þeir þingmenn sem hafa yfirgefið flokkinn beri enga ábyrgð á skuldum hans“. Þetta tal forsprakka Alþýðubandalagsins um að rauðgrænir hafi hlaupið bæði frá hugsjónum og skuldum er auðvitað hugsað til að sverta þá og klípa af þeim kjósendur. Það hefur því engin breyting orðið á vinstri væng íslenskra stjórnmála þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um annað. Þar eru eins og oftast áður tvö flokksbrot að berjast fyrir dauðri hugmyndafræði og bítast um sömu atkvæðin.