Miðvikudagur 24. febrúar 1999

55. tbl. 3. árg.

„Einn stærsti stjónmálaviðburður aldarinnar“, sagði Rannveig Guðmundsdóttir á dögunum þegar enn einu sinni varð breyting á þingflokki Þjóðvaka á kjörtímabilinu. En fyrst gekk Ágúst Einarsson úr þingflokknum og svo í hann aftur með vinina Sighvat og Guðmund Árna með sér en þá gekk Jóhanna úr þingflokknum en svo í hann aftur nú um daginn ásamt Margréti Frímannsdóttur. Svavar Gestsson gekk líka í nýja þingflokkinn en úr honum aftur svo fljótt sem verða má en  Guðrún Helgadóttir varamaður hans er einnig gengin úr Alþýðubandalaginu af því að hún vildi ekki ganga í Þjóðvaka með Margréti. Rétt eins og Ögmundur, Hjörleifur, Steingrímur og Kristinn H. Ragnar Arnalds hættir svo auðvitað líka. Ekki má gleyma Guðmundi Lárussyni varaþingmanni Margrétar en ef hún bregður sér af bæ fækkar en í nýja þingflokknum þar sem Guðmundur gekk úr Alþýðubandalaginu til að forðast Þjóðvakayfirtökuna.

En það hefur fleira markvert gerst í Alþýðubandalaginu í formannstíð Margétar en að þingmenn og varþingmenn hafi hlaupið úr flokknum í allar áttir til að hægt væri að sameina Margréti og Þjóðvaka. Ýmsir flokksbræður hennar úr Alþýðubandalaginu hafa að undarförnu beint til hennar spurningum um fjármál flokksins en Margrét hefur stært sig af því að þau séu nú öllum opin til skoðunar. Úlfar Þormóðsson hefur meðal annars spurt hvort rétt væri, að Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður flokksinsog fyrrverandi framkvæmdastjóri „hafi haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota“ og hvort „einn af framkvæmdastjórum flokksins og einn af oddvitum sameiningarferlisins“ hafi „notað ávísanahefti flokksins eins og sitt eigið og bókhaldarar hreyfingarinnar setið löngum stundum við að flokka sundur nótur af veitingahúsum borgarinnar frá rekstrarnótum flokksins“. Þessu svarar Margrét ekki.

En þó hún kjósi að svara engu um „opið“ bókhald Alþýðubandalagsins fannst henni rétt að beina spurningu til fyrrum varaformanns flokksins Steingríms J. Sigfússonar í fréttum Bylgjunnar á mánudag. Þar spyr hún „hvers konar ráðningarsamningar voru í gangi á þeim tíma,“ þ.e. áður en hún tók við formennsku árið 1995, og ýjar að því að einhverjir óeðlilegir ráðningarsamningar hafi verið gerðir hjá Alþýðubandalaginu þá. Eða hvað á hún við? Og hvers vegna kýs hún að spyrja fyrrum varaformann flokksins en ekki fyrrum formann, Ólaf Ragnar Grímsson? Eftir því sem ósvaraðar spurningar hrannast upp fer þögn formanns Alþýðubandalagsins og talsmanns bræðingsins að verða æ meira æpandi.

frelsi.gif (2085 bytes)
frelsi.gif (2085 bytes)

Heimdallur hefur sett upp heimasíðu sem félagið tileinkar frelsinu og nefnir frelsi.is. Þar má finna ýmsan fróðleik og frelsi einstaklingsins, greinar, pistla og jafnvel myndasögu. Ætlunin mun vera að uppfæra síðuna reglulega.

ihs.jpg (10208 bytes)
ihs.jpg (10208 bytes)

Líkt og undafarin ár býður Institute for Humane Studies við George Mason Univiersity vikulöng námskeið fyrir áhugafólk um hagfræði, stjórnmál og heimspeki. Námskeiðin eru haldin á sumrin í háskólum víðs vegar um Bandaríkin. Nú fer að syttast í að umsóknarfrestur fyrir námskeið þessa árs renni út. Þó nokkrir Íslendingar hafa sótt þessi námskeið. Allar frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu IHS en Andríki getur jafnframt veitt aðstoð við umsóknir.