Bandaríski blaðamaðurinn H. L. Mencken lét eitt sinn svo um mælt að í raun snerist venjuleg pólítík um að hræða fólk til fylgilags við ákveðinn málstað. Þegar fólk væri hæfilega skelkað væri auðveldara að leiða það áfram en til þess þyrfti auðvitað endalausan hræðsluáróður. Umhverfisverndarsinnar hafa seilst til aukinna áhrifa í stjórnmálum undanfarna áratugi. Aðalsmerki þeirra og helsta ástæðan fyrir þeim árangri sem þeir hafa náð er látlaus hræðsluáróður. Ef þú kýst okkur ekki, segja þeir, og hagar þér ekki eins og við segjum munu umhverfis- og heilbrigðisvandamál ógna lífi þínu. Það er undarlegt að þessi áróður beri árangur nú þegar fólk býr almennt við betri heilsu og lifir lengur en nokkru sinni fyrr.
Eins og við þekkjum af umræðunni um hvalina er hræðsluáróður umhverfisverndarsinnar oft byggður á vísvitandi ósannindum um ástand náttúrunnar. Því er haldið að almenningi að hvalirnir séu að deyja út og þessi ósannindi notuð til að afla umhverfisverndarsamtökum fjár. Hræðsluáróðurinn er stundum studdur rannsóknum á tilraunadýrum sem eru neydd til að innbyrða mikið magn ákveðins efnis á stuttum tíma. Þegar slík ítroðsla ákveðins efnis veldur frumubreytingum hjá tilraunadýrunum eru umhverfisverndarsinnar fljótir að draga þá ályktun að efnið sé skaðlegt heilsu manna og þess vegna verði að banna það. Oft er algjörlega óraunhæft að ætla að maðurinn innbyrði svo stóra skammta þessara efna. Það er semsé alveg horft framhjá því að það er magn efna sem veldur eituráhrifum en ekki efnin sjálf. Flest efni valda óæskilegum áhrifum ef þau eru innbyrt í mjög miklu magni. Vatn er lífshættulegt ef menn anda því að sér í of miklu magni. Stundum er nóg að efni séu tilbúin eða gerviefni til að þau lendi á svarta lista umhverfisverndarsamtaka. Einu gildir þótt þessi efni séu til frá náttúrunnar hendi í miklu magni. Gerviefni eru ekki náttúruleg og hljóta því að vera hættuleg!
Þetta furðulega viðhorf til vísindarannsókna er stundum nefnt varúðarreglan en hún var orðuð svo í Ríóyfirlýsingunni á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992: …þar sem möguleiki er á umhverfisskaða sem ekki má bæta er ekki rétt að láta vísindaleg álitamál koma í veg fyrir að gripið sé til varnaraðgerða. Með öðrum orðum er ekki lengur nauðsynlegt að afla vísbendinga um að efni geti verið skaðlegt áður en það er bannað. Sönnunarbyrðin er orðin öfug. Engu er líkara en að viðhorfið skjóta fyrst og spyrja svo sé gengið aftur með varúðarreglunni.