Þriðjudagur 16. febrúar 1999

47. tbl. 3. árg.

„There are some spooky things going on in this matter“ myndi einhver segja um vinnubrögð vinstri manna á Vesturlandi þessa dagana. Þar er nefnilega unnið að því þar smíða prófkjörsreglur fyrir nýjasta framboð Jóhönnu Sigurðardóttur. Markmiðið með reglunum er aðeins eitt: að koma í fyrir að Gísli S. Einarsson eigi möguleika á fyrsta eða öðru sæti.

Í gær klippti Gísli hins vegar út síðu úr DV og veifaði henni á þingi og spurði dómsmálaráðherra hvort ekki væri rétt að „grípa til aðgerða“ gegn auglýsingum um kynlífssögur og nektardansstaði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vinstri menn veitast að starfsfólki nektardansstaða því fyrir nokkrum vikum taldi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rétt að grípa til aðgerða gegn nektardansstöðunum. Ingibjörg Sólrún stjórnar því nú þegar hvar, hvenær og hversu lengi menn skemmta sér og hirðir svo auðvitað skatta af öllu saman. Er það ekki næg afskiptasemi?

Í DV í gær er sagt frá því að sveitarstjórn Borgarbyggðar ætlar að bjóða út sorphirðu og förgun. Þetta er hugmynd sem fleiri sveitarfélög mættu taka til skoðunar. Það er engu líkara en sveitarstjórnir vítt og breitt um landið telji að einkaaðilar geti ekki tekið að sér verkefni sem sveitarfélögin hafa ákveðið að greiða fyrir úr „sameiginlegum sjóðum“. Þó má borgarstjórn Reykjavíkur eiga að hún gefur einstaklingum í borginni ávallt kost á því að fjármagna fleiri og fleiri verkefni – hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Ríkissjónvarpið hóf í gær sýningu fræðslumyndar um Kalda stríðið en sem kunnugt er lauk því í síðustu viku þegar Svavar Gestsson þáði að gerast skiptinemi í Winnepeg. Að því er ambassador Svavar segir sjálfur. Það er því ekkert annað að gera fyrir framleiðendur þáttanna en að bæta 25. þættinum við: Þegar Svavar fór til Winnepeg og lauk Kalda stríðinu.