Ráðherraskipuð nefnd um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum auglýsir þessa daga grimmt í sjónvarpi til stuðnings ákveðnum frambjóðendum í prófkjörum sem einnig fara fram þessa dagana. Þessir ákveðnu frambjóðendur eru konur. Konum hefur þó gengið mjög vel í prófkjörum að undanförnu og vart sérstök ástæða til að auglýsa á kostnað skattgreiðenda þeim til styrktar. Enda fráleitt að ríkið mismuni fólki með þessum hætti og visst virðingarleysi við konur. Ef til vill mætti þó taka til athugunar að styrkja baráttu ákveðinnar hámenntaðrar konu sem á nokkrum dögum hefur bæði klofið samfylkinguna og Kvennalistann. Ekki síst hennar innri baráttu við sjálfa sig um áttunda sætið.
Mikill vandi blasir nú við í dagvistarmálum í höfuðborginn þó forsprakkar R-listans hafi haldið því statt og stöðugt fram fyrir kosningar að allt væri með besta móti. En síðan eru jú liðnir nokkrir mánuðir og kosningaloforðin hafa fallið eitt af öðru. Meðal þess vanda sem upp er kominn er að ef fer sem horfir munu sumarlokanir verða á 40 leikskólum næsta sumar. Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar borgarfulltrúa D-listans koma iðulega upp hugmyndir í stjórn dagvistar barna til lausnar vandanum, m.a. um að auka hlut einkaaðila í leikskólamálum. R-listinn mun hins vegar ekki geta hugsað sér annað en öll börn njóti uppeldis hins opinbera og því verða slíkar hugmyndir ekki að veruleika.
Óhætt er að taka undir það að mun heppilegra væri ef borgin legði sig fram um að hleypa einkaaðilum að í dagvistarmálum. Raunar má ganga mun lengra, því borgin ætti með réttu að draga sig algerlega út úr rekstri dagheimila, enda hagkvæmara á þessu sviði sem öðrum að láta einkaaðila um að reka fyrirtæki. Einkaaðilar hafa mun betri möguleika en opinberir aðilar til að veita góða þjónustu fyrir lágt verð og ef einkaaðilar reka fyrirtæki er ekki hætta á sumarlokunum og öðrum furðulegum fylgifiskum opinbers rekstrar. Eða kannast einhver við að fyrirtæki á borð við matvöruverslanir, kaffihús eða líkamsræktarstöðvar loki á sumrin?