Laugardagur 30. janúar 1999

30. tbl. 3. árg.

Flokkaflakkarar og skoðanalausir vinstri menn eru til umfjöllunar í grein eftir Jakob F. Ásgeirsson í Morgunblaðinu í gær undir fyrirsögninni Valdafýsn flokkaflakkaranna. Jakob segir Ólaf Ragnar Grímsson holdgerving flokkaflakksins og bendir á að hann hafi barist „hart fyrir málstað þriggja ólíkra flokka á stjórnmálaferli sínum“. „Hans keppikefli í pólitík sýnist fyrst og fremst hafa verið að koma sjálfum sér í forystuhlutverk og flokkaflakkið leiddi því aldrei til málefnalegs upppgjörs,“ segir Jakob ennfremur.

Þá víkur sögunni að Össuri Skarphéðinssyni, en samkvæmt talningu Jakobs hefur hann verið „málsvari a.m.k. fjögurra ólíkra fylkinga í pólitík“. Jakob telur Össur ekki hafa verið samkvæmari sjálfum sér en lærifaðirinn Ólafur Ragnar og að það sé fremur valdapot en hugsjónir sem knýi hann áfram.
„Össur blaðabani, eins og hann er stundum nefndur (hann ritstýrði tveimur blöðum í þrot en var látinn fara frá þriðja blaðinu þegar illa horfði), hefur nú gengið í fóstbræðralag með gömlum samherja af Þjóðviljanum, flokkaflakkaranum Merði Árnasyni,“ segir Jakob og kynnir þar með þriðja flakkarann til sögunnar. Hann nefnir að auki flakkarana Jóhönnu og Ástu Ragneiði, en þær hafa eins og hinir leitað á milli flokka í örvæntingarfullri leit að pólitískum frama.