Er náttúrulögmál að hið opinbera sjái um sorphirðu? Nei, vitaskuld ekki. Ekki frekar en skipaútgerð, pizzubakstur, ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu og svo framvegis. Nú hefur verið gefin út skýrsla á vegum Cato stofnunarinnar í Bandaríkjunum rannsókn á því hvort hagfræðileg rök hnígi að því að þessi þjónusta skuli vera í höndum hins opinbera og er skemmst frá því að segja að svo er alls ekki.
Í skýrslunni segir að ekki sé mikil hætta á einokunartilburðum vegna þess að ódýrt er að hefja rekstur sorphirðufyrirtækis og af ótta við samkeppni geti fyrirtæki ekki haft verð of hátt . Sveitarfélög geta hins vegar hagað verðlagningu eins og þeim sýnist. Eitt af fjölmörgum gjöldum sem Reykjavíkurborg hefur t.d. hækkað nýlega er sorphirðugjald, enda hefur borgin einokun og þarf ekki að hafa áhyggjur af samkeppni. En munurinn á einkafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum er einmitt sá að einkafyrirtækin verða að halda niðri kostnaði og halda verði í lágmarki á meðan opinber fyrirtæki ganga í vasa almennings að vild.
Á meðan hið opinbera rekur sorpfyrirtæki er einnig hætt við að þrýstihópar sem þurfa að losna við mikið af rusli beiti áhrifum sínum til að kostnaðinum við sorphirðuna sé velt yfir á aðra. Ef sorphirða væri alfarið í höndum einkafyrirtækja kæmi raunverulegur kostnaður við sorplosun einstakra fyrirtækja og heimila í ljós. Þessi kostnaður er afar óljós á meðan hið opinbera er að ruslast í þessum málum. Það er nauðsynlegt að þessi kostnaður komi í ljós til að fyrirtæki og heimili hafi hvata til að draga úr sorpmagni. Menn hefðu því fjárhagslegan hag af því að stilla frákasti í hóf og leita leiða til að draga úr rusli. Ekki er ólíklegt að samkeppnismarkaður í sorphirðu og förgun gæti af sér nýjungar bæði í förgun og endurvinnslu.