Vafalaust fagna því margir að frá og með áramótum geta menn lagt 2,0% viðbótariðgjald í lífeyrissjóð án þess að dreginn sé tekjuskattur af framlaginu. Tekjuskattinn þarf hins vegar að greiða þegar að útborgun kemur, bæði af því sem greitt er í sjóðinn og þeirri ávöxtun sem inngreiðslan ber. Er þessi sparnaður hugsaður sem viðbót við þau 10% launa sem fara nú þegar sem skyldugreiðsla til lífeyrissjóða. Það sem helst má gagnrýna við þessa framkvæmd er að með henni er ríkið enn einu sinni að stýra ráðstöfun fólks á sjálfsaflafé. Það virðist njóta vaxandi vinsælda hjá stjórnvöldum að stýra mönnum með skattaafslætti í stað skattheimtu. En forsenda þess að menn bíti á skattaafsláttaragnið er jú að skattar séu svo háir að menn neyðist til þess. Nú þegar hvetur ríkið til þess að menn kaupi hlutabréf að ákveðnu marki með tekjuskattsafslætti, kaupi eignarskattsfrjáls spariskírteini og kaupi húsnæði með miklum lántökum til að fullnýta mögulegar vaxtabætur. Vaxta- og barnabótakerfið letur menn raunar einnig til að auka tekjur sínar. Þess utan er svo neyslu manna stýrt með ýmsum ráðum svo sem innflutningshöftum, háum gjöldum á vissar vörutegundir svo sem áfengi, eldsneyti og bíla, skylduáskrift að fjölmiðlum að ógleymdri skylduaðild að verkalýðsfélögum.
Pétur Blöndal alþingismaður ritar grein um kost og löst á þessum nýja lífeyrissparnaði í Viðskiptablaðið í gær. Þar segir Pétur m.a.: Samkvæmt nýsamþykktum lögum er gert ráð fyrir að atvinnurekendur geti bætt 10% ofan á framlag launþegans, þ.e. 0,2% af launum og fengið lækkun á tryggingagjaldi á móti þannig að ríkið er í reynd að styrkja þennan sérstaka sparnað beint. Hljómar vel en er skelfilegt í framkvæmd. Þeir sem létu sér detta þetta í hug hafa örugglega aldrei rekið fyrirtæki, nema þá ríkisfyrirtæki, þar sem umstang og kostnaður virðist oft ekki skipta máli. Líklega mun færslufjöldi fyrirtækja vegna launa aukast um 20% og meðalupphæð þessara færslna mun verða undir 250 kr. Kostnaður fyrirtækja og skatteftirlitsmanna við hverja færslu verður sennilega meiri en færslan sjálf.
Í Viðskiptablaðinu í gær í dálkinum Undarleg vika er ritað um vinnubrögð Björns Bjarnasonar tónlistaráhugamanns við væntanlegt tónlistarhús: Fyrst fær hann formann samtaka um byggingu tónlistarhúss til að meta þörfina fyrir tónlistarhús en það verður að teljast ákaflega hæpið að maður sem þegar er formaður þrýstihóps skuli ekki þegar hafa gert upp hug sinn – og merkilegt nokk hann kemst að því að þörf sé fyrir slíkt hús. Það hlýtur að teljast fáheyrt að þrýstihópi skuli vera afhent nammiskál ríkissjóðs á þennan hátt.