Miðvikudagur 13. janúar 1999

13. tbl. 3. árg.

Á kærleiksheimili framsóknarmanna í Reykjavík gengur mikið á. Hart er barist um tvö efstu sætin, sem hugsanlega verða áfram þingsæti eftir kosningarnar í vor. Mikið er smalað og virðist svo sem tvær fylkingar takist á; annars vegar stuðningsmenn núverandi þingmanna, Finns Ingólfssonar og Ólafs Arnar Haraldssonar, og hins vegar stuðningsmenn Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa og Arnþrúðar Karlsdóttur varaþingmanns. Harkan er mikil, en flestir gera þó ráð fyrir því að núverandi þingmenn haldi sætum sínum. Tortryggnin innanbúðar hjá framsóknarmönnum vegna þessara átaka er nú orðin svo mikil, að ásakanir um óheilindi og brögð eru skammt undan. A.m.k. er ekki hægt að skilja kröfu Alfreðs og Arnþrúðar um að kjörgögn verði í vörslu sýslumanns frá kosningu og til talningar öðru vísi en svo, að þau óttist að ella sé hætta á einhverjum svikum. Hvort þau gera ráð fyrir að kjörgögn verði látin hverfa eða að nýjum atkvæðaseðlum verði bætt við skal ósagt látið. Þau þekkja auðvitað Framsóknarflokkinn af áralöngu starfi sínu í þágu hans. Það er hins vegar mjög óvenjulegt hér á landi, ef ekki einsdæmi, að prófkjörsframbjóðendur flokks treysti ekki trúnaðarmönnum flokksins, kjörstjórn eða starfsmönnum, fyrir vörslu kjörgagna milli kosningar og talningar.

Í fréttum er nú sagt frá því að á einni af fjölmennari deildum dómsmálaráðuneytisins séu allt að 20% mannaflans undir áhrifum ólöglegra fíkniefna. Þetta leiddi sýnataka og rannsóknir á árunum 1994 til 1996 í ljós. Þetta er vissulega nokkuð hátt hlutfall ekki síst þegar haft er í huga að árið 2002 nálgast óðfluga en þá verður Ísland fíkniefnalaust. Ekki vekur síður athygli að á þessari deild, sem er til húsa að Litla-Hrauni og víðar, er strangt eftirlit með innanbúðarmönnum. Mun strangara en t.d. með öðrum deildum dómsmálaráðuneytisins…