Eins og menn muna lofaði Helgi Hjörvar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, að lækka gjöld á borgarbúa. Eftir kosningar efndi hann svo loforð sitt með því að stuðla að því að útsvar borgarbúa var hækkað um einn milljarð. Þegar svo var komið var hið hálfs árs gamla loforð hans borið upp á hann. Þá reyndi hann, frekar en ekkert, að halda því fram að hann hafi alls ekki ætlað að lækka skatta borgarbúa heldur hafi hann einmitt ætlað að lækka þjónustugjöld sem borgarbúar greiða borginni. Nú reynir hann ekki einu sinni að standa við þessa eftiráskýringu á kosningaloforðinu. Stöð 2 greindi í gærkvöldi frá þróun þjónustugjalda Reykjavíkurborgar árið 1998: Hækkun, hækkun og hækkun. Ný gjöld og meiri hækkun.
Ekkifréttir af framboðsmálum vinstri manna halda áfram að segja landsmönnum ekki neitt um framboð sem ekki er neitt. Nýjasta dæmið kom í gær, en þá voru sjónvarpsáhorfendur hitaðir upp með því að láta þá vita að sjálf Margrét Frímannsdóttir, formaður afgangs Alþýðubandalagsins, mundi lýsa því yfir í beinni útsendingu hvort hún færi fram í Reykjavík eða ekki. Spennan var gífurleg og réðu áhorfendur sér vart sakir hugaræsings. Svo kom að því að fréttamaðurinn spurði hinnar miklu spurningar um það hvort Margrét hygðist fram í Reykjavík. Svarið var stutt og laggott, nei, það ætlaði hún ekki og hafði raunar fyrir löngu tekið um það ákvörðun að eigin sögn.
Fréttamaðurinn spurði hins vegar ekki að því sem hlaut að vera efst í huga þeirra sem beðið höfðu spenntir eftir þessum merku tíðindum: Hvers vegna sagði Margrét þá ekki frá þessu strax? Hvers vegna að vera með þennan leikaraskap? Jú, skýringin er einföld. Fréttamaðurinn spurði ekki vegna þess að fólk mátti ekki sjá að þessar endalausu fréttir af framboði vinstri manna eru allar um ekki neitt og Margrét sagði ekki frá þessari ákvörðun sinni fyrr en á þessari stundu eftir mikla kynningu, vegna þess að hún eins og aðrir vinstri menn gera út á fjölmiðla og leika sér að því að vefja þeim um fingur sér til að koma sér áfram.