Mánudagur 4. janúar 1999

4. tbl. 3. árg.

Svavar Gestsson þingmaður Alþýðubandalagsins tilkynnti með viðhöfn í gær að hann ætli ekki að gefa kost á sér með samfylkingunni í vor. Eru þá sex af níu þingmönnum Alþýðubandalagsins búnir að ákveða að yfirgefa samfylkingartilburðina og halda á vit nýrra ævintýra. Svavars verður vafalaust saknað af þeim sem kunna að meta menn sem aldrei hika við að taka ranga afstöðu. Svavar var andvígur NATO, EES, frjálsu útvarpi, jöfnum atkvæðisrétti,   frelsi til bjórsölu og einkavæðingu.

Þeir sem stóðu í biðröð eftir leigubíl í miðbænum aðfararnótt nýársdags hafa sjálfsagt velt því fyrir sér hver ástæðan væri fyrir því að þeir þyrftu að krókna úr kulda eftir annars ágæta skemmtun. Sama hugsun fer sjálfsagt um huga kaldra gesta miðbæjarins um hverja helgi, því þessi miður skemmtilega biðröð er fylgifiskur skemmtanalífs Reykjavíkur. Fyrirfram mætti ætla að fyrst vandinn er viðvarandi þá sé ekki á honum nein einföld skýring eða einföld lausn. Svo slæmt er ástandið þó ekki, því skýringin og lausnin er af einfaldasta tagi.

Skýringin á þessari eilífu biðröð er að í Reykjavík eru gefin út sérleyfi til leigubílaaksturs og þessi sérleyfi eru svo fá að leigubílarnir anna ekki eftirspurn. Þeir sem fá sérleyfin hagnast vitaskuld á þeim, en aðrir þurfa bæði að sætta sig við að eiga þess ekki kost að vinna fyrir sér með leiguakstri og að fá slæma þjónustu leigubíla. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing slíkra sérleyfa.

Samkvæmt fréttum The Daily Yomiuri í Japan stendur til að aflétta hömlum af leiguakstri þar í landi árið 2001. Til að standa vel að vígi í væntanlegri samkeppni hafa samtök leigubílstjóra þar í landi tekið upp viðurkenningar til þeirra leigubílstjóra sem standa sig vel og keyra óaðfinnanlega. Þeir fá stjörnur frá samtökunum í glugga bifreiða sinna, þannig að viðskiptavinirnir þekki góða leigubílstjóra frá slæmum. Slíkt eftirlit einkaaðila getur á þessu sviði sem öðrum komið í staðinn fyrir eftirlit og hömlur hins opinbera. Ef afskiptum hins opinbera af leigubílamarkaðnum yrði hætt hér á landi mundi sambærilegt kerfi vafalaust komast á og viðskiptavinir mundu kjósa að versla við áreiðanlega bílstjóra. En viðskiptavinirnir hefðu val og umfram allt þá mundi framboð miðast við eftirspurn en ekki þrönga hagsmuni fárra útvaldra.