Nú um áramótin lét Friðrik Sophusson af þingmennsku eftir rúmlega 20 ára setu á Alþingi, en hann var fyrst kjörinn til setu þar sumarið 1978. Um hríð hefur verið ljóst að Friðrik væri að hætta í pólitík. Hann lét af embætti fjármálaráðherra í maí síðastliðnum og hverfur nú af þingi til þess að taka við stöðu forstjóra Landsvirkjunar. Reikna má með að beinum afskiptum hans af stjórnmálum ljúki svo í mars nk. á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, en þá mun hann láta af störfum varaformanns flokksins, sem hann hefur gegnt frá 1981, að undanskildum árunum 1989 til 1991. Þrátt fyrir að Friðrik sé aðeins 55 ára gamall er ferill hans í stjórnmálum orðinn æði langur. Hann hóf störf í Sjálfstæðisflokknum á viðreisnarárunum og komst fljótt í forystusveit ungra sjálfstæðismanna. Hann varð formaður SUS 1973 og í formannstíð hans tóku ungir sjálfstæðismenn aftur að veita straumum nýrra, frjálslyndra hugmynda inn í stjórnmálaumræðu hér á landi, en einmitt um þetta leyti fengu hugmyndir frjálshyggjumanna nýjan byr í seglin bæði vestan hafs og austan. Ungir menn á Íslandi fóru að kynna sér skrif frjálslyndra heimspekinga og hagfræðinga á borð við Hayek og Friedman og komu áhrif þessara sjónarmiða meðal annars fram í róttækri stefnuskrá SUS frá árinu 1977, sem kynnt var undir heitinu: Báknið burt. Þar lögðu ungir sjálfstæðismenn til ýmsar grundvallarbreytingar, sem meðal annars höfðu þann tilgang að draga verulega úr ríkisumsvifum, lækka skatta og ná tökum á verðbólguvandanum, sem þá var alvarlegasta efnahagsvandamál landsmanna.
Í viðtali við tímaritið Stefni árið 1991 segir Friðrik frá því hvernig móttökur þessar hugmyndir fengu og nefnir dæmi frá heimsókn sinni í Landssmiðjuna: Árið 1978 þegar SUS var nýbúið að kynna tillögur sínar um Báknið burt var ég í framboði í fyrsta skipti. Mér var auðvitað núið því um nasir að vilja selja ýmis ríkisfyrirtæki. Ég fór á fund í Landssmiðjunni og starfsmenn þar réðust á þessa villutrú. Á þessum fundi var ort: Á því tel ég varla von / að vinni þjóð til muna / þó að Friðrik Sophusson / selji Landssmiðjuna. Síðar gerðist það að Landssmiðjan var seld starfsmönnum…
Það var á þessum forsendum sem Friðrik Sophusson gaf kost á sér til þingmennsku árið 1978 og segja má að allan sinn þingferil hafi hann starfað í þessum anda. Lengst af hefur hann verið í hópi frjálslyndustu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og verið í forystusveit þeirra, sem varað hafa við útþenslu ríkisbáknsins, óhóflegri skattheimtu og almennri forsjárhyggju. Hann var til dæmis einn þeirra þingmanna sem barðist hvað einarðlegast fyrir frelsi til útvarpsrekstrar hér á landi og lagði fram mörg lagafrumvörp þess efnis.
Frjálshyggjumenn bundu því miklar vonir við það þegar Friðrik tók við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991. Þeir urðu hins vegar fyrir talsverðum vonbrigðum fyrstu árin, enda þótti mörgum heldur ganga treglega að minnka ríkisumsvifin, einkavæðing ríkisfyrirtækja gekk hægt og skattar voru hækkaðir en ekki lækkaðir. Ýmsum þótti sem einkavæðing væri ekkert sérstaklega á dagskrá í fjármálaráðuneytinu; þar snerist allt um svokallaða nútímavæðingu, sem fólst í því að reka ríkisfyrirtækin betur í stað þess að selja þau. Friðrik sætti gagnrýni fyrir þetta frá hægri og hefur vafalaust verið sammála ýmsu í þeirri gagnrýni enda ekki einvaldur um þessi mál í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Og til þess að gæta sanngirni verður að geta þess að á sama tíma sat hann undir ákafri gagnrýni vinstri manna, sem með stóryrðum létu í veðri vaka að Friðrik færi fremstur í flokki þeirra manna, sem vildu brjóta niður velferðarkerfið og níðast á öldruðum og öryrkjum.
Á síðari hluta fjármálaráðherratíðar Friðriks hefur verið mun meiri ástæða fyrir frjálshyggjumenn að fagna störfum hans. Stærri skref hafa verið stigin í einkavæðingarátt heldur en áður. Unnt hefur verið að nýta betra árferði til þess að lækka skatta og segja má að tekist hafi að koma betri stjórn á fjármál ríkisins en dæmi eru um frá síðari áratugum. Þannig hefur verið bundinn endir á langvarandi skuldasöfnun ríkisins og skuldir verið lækkaðar í fyrsta sinn í langan tíma. Friðrik á mikinn þátt í því að tekist hefur að ná þessum árangri. Hefur hann þar með náð því að hrinda í framkvæmd ýmsum af þeim stefnumálum, sem hann setti á oddinn þegar hann hóf stjórnmálaafskipti sín á áttunda áratuginum. Það fór svo einnig vel á því, að síðasta stóra verkefnið sem Friðrik Sophusson innti af hendi sem alþingismaður var að stýra nefnd um breytingar á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi, sem nú hefur skilað tillögum sem fela í sér verulegar úrbætur á núverandi kerfi. Friðrik hefur alla tíð verið baráttumaður fyrir jöfnun atkvæðavægis og hefur nú með tillögugerð sinni lagt þungt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.
Vef-Þjóðviljinn óskar Friðriki Sophussyni velfarnaðar í störfum hjá Landsvirkjun og vonar að hann muni þar verða í fararbroddi fyrir breytingum á sviði orkumála, þannig að samkeppni og frjáls markaður skapist á því sviði sem annars staðar.