Í nýútkomnum Stefni, tímariti Sambands ungra sjálfstæðismanna, eru nokkrar áhugaverðar greinar og viðtöl um það hvort og þá hversu langt ríkisvaldið megi ganga á frelsi einstaklinganna. Þar er m.a. viðtal við Bruce Benson, rannsóknarprófessor í hagfræði við Florida State University, en Benson er þeirrar skoðunar að flest eða allt það sem ríkið hefur með höndum í dag sé betur komið hjá einkaaðilum. Hann er þeirrar skoðunar að ekkert sé til sem heitir almannagæði, því alltaf megi ákvarða eignarrétt þannig að gæði séu einkagæði og því þurfi ríkið ekki að grípa inn í.
Benson heldur því fram að ríkið ryðji einkaaðilum út með afskiptum sínum, og setur vegagerð í sögulegt samhengi: [S]é litið til sögu veganna í Englandi má sjá að einkaaðilar sáu íbúunum fyrir vegum að mestu leyti. Vegum var í einstökum héruðum haldið við af valdhafanum í héraðinu. Þeir voru í eigu samfélgasins, að því leyti að allir innan þess gátu nýtt sér þá. Ríkið kom þarna hins vegar hvergi nærri. Vegir á milli einstakra héraða, utan eiginlegra dýraslóða, voru margir hverjir í upphafi einkareknir vegir, fjármagnaðir með vegatollum. Konungurinn sölsaði svo undir sig þessa tollheimtu. Lagði þá skyldu mönnum á herðar að leggja ekki vegi í ágóðaskyni. Hvati manna til að leggja vegi var eftir þetta tiltölulega lítill, en menn lögðu þá engu að síður til að tryggja samgöngur innan og á milli héraða til að örva verslun og viðskipti. Þannig var haldið áfram að leggja og halda við vegum. Sterk öfl höfðu svo áhrif á konunignn og fengu undarþágur frá því að þurfa að greiða vegatolla. Færri aðilar þurftu því að greiða meira til að halda vegunum við. Og þegar við bættist sú takmörkun að geta ekki hagnast á vegunum, hvarf hvatinn fyrir einkaaðila til að leggja vegi. Ríkið tók því að sér það hlutverk. Eins og sést á þessu dæmi getur ríkið með slíkum aðgerðum grafið undan þátttöku einkaaðila í að sjá fólki fyrir nauðsynjum. Dregið úr hvata einstaklinga til að útvega hverjum öðrum það sem þeir þurfa. Hægt og bítandi sölsar ríkið þannig undir sig verkefnin og krefst skatttekna til að leysa þau.
Í Alsír er eins og annars staðar tekist á um umsvif hins opinbera. Sá sem haft hefur forgöngu um einkavæðingu þar í landi, Abderrahmane Mebtoul, fyrrum hagfræðiprófessor, er þeirrar skoðunar að einkavæðing sé lykill að lýðræði fyrir landið. Verkalýðsfélög streitast hins vegar á móti breytingum, enda fara hagsmunir stjórnenda þeirra ekki alltaf saman við hagsmuni félagsmanna eða almennings. En Mebtoul bendir á að ríkið hafi greitt sem samsvarar um eitthundrað milljörðum íslenskra króna með ríkisfyrirtækjum á þessum áratug, en ef það fé hefði nýst til að skapa störf hefði þeim fjölgað um hálfa milljón. Hversu mörgum störfum ætli hafi verið sóað hér á landi vegna mikilla umsvifa hins opinbera?