Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi gagnrýndi það í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að borgin hefði eytt tíu milljónum króna í það eitt að geta opnað Hafnarhúsið fyrir kosningar síðastliðið vor. Undir þessa gagnrýni má taka enda er þessi sóun R-listans á skattfé borgarbúa ein af ástæðum þess að R-listinn missti tök á fjármálum borgarinnar og hækkaði útsvarið. En þó Vefþjóðviljinn sé hér sammála Júlíusi Vífli, þótti honum verra þegar Júlíus Vífill fór að kvarta yfir að útgjöld borgarinnar til menningarmála – sem Júlíusi Vífli munu vera mjög hugleikin – hafi ekki hækkað nóg! Einstakir borgarfulltrúar minnihlutans verða að gera sér grein fyrir því að það hljómar ekki sannfærandi að andmæla skattahækkunum en koma svo nokkrum dögum síðar og gagnrýna lítil fjárframlög borgarinnar til mála sem þeir hafa á sínum persónulega óskalista.
Þótt ýmis mannréttindasamtök séu uppteknari þessa dagana við að klófesta Pinochet æviráðinn öldungadeildarþingmann frá Chile en Zemin núverandi leiðtoga byltingarstjórnarinnar á meginlandi Kína væri líklega nær að elta Zemin. Hér stendur ekki til að bera blak af Pinochet, en það er dálítið umhugsunarverð forgangsröðun þegar hann er handtekinn á meðan leiðtogar í ríkjum á borð við Kína eru hvarvetna frjálsir ferða sinna.
Það þarf vart að minna á fjöldamorð núverandi stjórnar meginlands Kína á Torgi hins himneska friðar fyrir rúmum níu árum og ættu þau að duga til að stjórnarherrarnir teljist hafa brotið mannréttindi hressilega. En það má minna á að þessir herrar hafa ekki látið af harðstjórn þó þeir vilji gjarna hafa gott af Vesturlöndum í efnahagslegu tilliti.
Jafnaðarmenn hér á landi hafa í orði kveðnu þóst berjast mikið gegn því að menn greiði ekki skattana sína. (Að vísu hefur fólk eins og heilög Jóhanna ekki vílað fyrir sér að verja pólitíska bandamenn sína sem gerst hafa sekir um slík brot, en það er svo sem eftir öðru á þeim bæ.) En félagar þeirra á vinstri kantinum í Kína ganga þó enn lengra en vinstri menn hér segjast vilja fara. Í Kína eru menn teknir af lífi fyrir skattsvik.
Í Kína eru menn líka hundeltir fyrir að ræða pólitískar skoðanir sínar snúist þær ekki um að mæra Zemin og Maó. Þar standa nú yfir lokuð réttarhöld yfir manni sem hefur unnið það eitt til saka að hafa látið pólitískum andstæðingum stjórnarinnar í té tölvupóstföng 30.000 Kínverja. Þessi ágæti maður, Lin Hai, á yfir höfði sér ævilangt fangelsi fyrir þennan glæp. Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta allt nægir til að Bretar, Spánverjar og fleiri þjóðir sæti lagi og handtaki Zemin næst þegar hann kíkir við.