Í Búnaðarbankanum hf. eru nú 60 þúsund hluthafar. Auk þess högnuðust aðrir 30 þúsund einstaklingar á viðskiptum með bréf í bankanum í síðustu viku. Látum okkur nú sjá hvað Jóhanna Sigurðardóttir hafði að segja í síðustu viku um þessa einstöku einkavæðingu:
Þetta (einkavæðingu Búnaðarbankans) kallar ráðherrann almannavæðingu, en allir vita að er ekkert annað en einkavinavæðing.
Peningaöflin með kolkrabbann og fjölskyldurnar fjórtán í broddi fylkingar eru með ægihraða að soga til sín bankakerfið, sem stuðla mun að samþjöppun valds og óeðlilegra hagsmuna- og stjórnartengsla í bankakerfinu og verða farvegur fyrir einokun og fákeppni á peningamarkaðnum.
Ráðherrann ætlar greinilega að gera sitt til að braskið haldi áfram, skattgreiðendur verði hlunnfarnir, og bitarnir af tug milljarðaverðmæti landsmanna sem felst í Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbankanum passi nú örugglega í gin kolkrabbans.
Það er athyglisvert fyrir þá sem hafa mikið álit á prófessorum við Háskóla Íslands um þessar mundir að helsti undirleikari Jóhönnu í síðustu viku var einmitt prófessor í viðskiptafræðum við HÍ um árabil.