Í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um fylgi stjórnmálaflokkanna kom í ljós afar lítið fylgi samfylkingarinnar hjá kjósendum á aldrinum 18 -34 ára. Það er jafnvel minna en í öðrum aldurshópum. Lengi getur smátt smækkað. Tveir forystumenn samfylkingarinnar voru í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld spurðir hverju það sætti að einungis 7% ungs fólks styður fylkinguna. Margrét Frímannsdóttir gaf einfaldlega í skyn að ungt fólk hefði ekki áhuga á stjórnmálum! M.ö.o. gaf Margrét í skyn að almennt þekkingarleysi og fáfræði væri þess valdandi að hún og félagar hennar í fylkingunni nytu einskis trausts. Þetta eru furðuleg skilaboð til ungra kjósenda. Rannveig Guðmundsdóttir taldi hins vegar að könnunin gæfi ranga mynd eða bara að rangt fólk hefði verið spurt! Þó var nýlega gerð önnur könnun sem gaf svipaðar niðurstöður.
Það undarlega við að tveir forystumenn samfylkingarinnar voru spurðir þessarar spurningar er auðvitað það að flestir aðrir landsmenn en einmitt þeir hafa svör á reiðum höndum við þessari spurningu. Það skemmtilega við að spyrja forystu samfylkingarinnar er auðvitað að það er ekki á hverjum degi sem sjálft svarið er innt eftir svari.
Það er nú varla þorandi að nefna hugmyndir um skattahækkun þegar R-listinn er í skattahækkunarham, en skriffinnar Evrópusambandsins hafa komið fram með tillögu að nýjum sköttum til að standa straum af rekstrarkostnaði sínum. Samkvæmt frétt í þýska dagblaðinu Bild í gær vilja þeir leggja 3.000 króna skatt á hvern síma innan sambandsins. Þessi snjalla hugmynd á að duga fyrir 10% af sóun sambandsins, en þeir hafa svo sem hugmyndir um hvernig afla megi enn meira fjár. Þeim þætti tilvalið að gera það með flugvallarskatti og sérstökum virðisaukaskatti, eyrnamerktum ESB. Þeir deyja svo sannarlega ekki ráðalausir skriffinnarnir í Evrópu þegar kemur að því að sauma að fólki. Og raunar fylltist einn þýskur stjórnmálamaður slíkum ótta fyrir hönd skattgreiðenda að hann sagðist ekkert annað geta gert en að hvetja þá til að sauma fyrir vasana sína. Sú hvatning á við hér á landi einnig.