Í Fókusi síðastliðinn föstudag fá þingmenn á (neftóbaks)baukinn hjá Einari Baldvini Árnasyni laganema. Ástæðan er furðulegt bann við innflutningi nef- og munntóbaks. Einar Baldvin er spurður hvort hann sé eitthvað óhress með að fá ekki að taka í vörina: Mér finnst það yfirnáttúrulega fáránlegt. Ég veit ekki hvað okkar háæruverðugu alþingismenn telja vera sitt hlutverk, en hitt veit ég þó að það er ekki þeirra hlutverk að hugsa fyrir hvern og einn Íslending. Samt sem áður finnst þeim alveg sjálfsagt að segja þeim einstaklingum sem taka í nefið eða vörina að þeir megi ekki gera það. Í fyrsta lagi er þetta forræðishyggja af verstu tegund sem lýsir engu öðru en ótrúlegum hroka og sýnir að alþingismenn telja sér ekkert óviðkomandi í daglegu lífi fólks. Það er sjálfsagt að reyna að koma í veg fyrir sölu til barna en það er ekkert annað en mannfyrirlitning að segja fullorðnu fólki svona fyrir. Í öðru lagi er bannið byggt á misskilningi frá upphafi. Heilbrigðisráðherra hélt því fram að munntóbak væri bannað innan Evrópska efnahagsvæðisins og sýndi þar með yfirgripsmikla vanþekkingu sína á málinu. Stór hluti Svía tekur í vörina og myndu þeir aldrei líða slíkt bann. Í þriðja lagi er bannið brot á EES-samningnum þar sem leyft er að selja íslenskt tóbak í nef og vör en það erlenda bannað. Slík mismunun brýtur gegn skuldbindingum Íslands.
Líklega hafa flestir fallist á að ríkið sé ill nauðsyn þótt ekki væri nema til að að vernda fólk gegn glæpum og tryggja að samningar standi. Bruce Benson, lagaprófessor við Florida State University, er ekki alveg á sama máli. Árið 1990 kom út bókin The Enterprise of Law eftir hann en þar rakti hann sögu einkalausna á afbrotum og hvernig menn halda samninga án þess að ríkið komi nærri. Nú hefur Benson sent frá sér aðra bók To Serve and to Protect – Privatization and Community in Criminal Justice. Þar bendir hann á að ríkisrekin lögregla og dómstólar séu tiltölulega ný fyrirbæri. Áður en þau þróuðust voru mörg þeirra mála sem þessi ríkisapparöt sjá um í dag leyst með öðrum hætti. Benson bendir einnig á vaxandi hlut einkarekinnar öryggisgæslu nú til dags enda hafi ríkisrekna gæslan brugðist eins og annar ríkisrekstur. Fólk geti ekki lengur treyst ríkislögreglunni til að gæta eigna sinna og öryggis og ríkisrekin dómskerfi er fræg að endemum fyrir seinagang. Til dæmis um þetta nefnir Benson að nú mun helmingur þjófnaða innan fyrirtækja leystur án afskipta ríkisvaldsins og án þess að afbrotið sé nokkurn tímann tilkynnt til yfirvalda. Almenningur borgar einnig öryggisfyrirtækjum fyrir gæslu á heimilum sínum og nágrenni í stað þess að bíða eftir Geir og Grana. Þetta telur Benson til marks um að við séum að snúa aftur til annarra lausna.
Vafalaust þykja þessar hugmyndir Bensons fjarstæðukenndar við fyrstu skoðun en það þótti einkavæðing fangelsa líka fyrir nokkrum árum en einkarekin fangelsi eru nú viðtekin venja víða um heim. En þetta eru forvitnilegar hugmyndir. Einkavæðingin virðist ekki eiga sér nein takmörk. Bókina má kaupa hjá Laissez Faire Books.